Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

Allt að gerast í ABC skólanum í Búrkína Fasó. 

Skóli var settur á ný þann 3. október sl. og börnin voru spennt að setjast aftur á skólabekkinn. 

alt

Starfsmenn skólans og sjálfboðaliðar hafa ekki setið auðum höndum og búið er að lyfta sannkölluðu grettistaki undanfarnar vikur. Bygging nýs framhaldsskóla er langt á veg komin og er hún þrjár hæðir. Nýjum sólarsellum hefur verið komið fyrir og búið er að koma stærðarinnar vatnstanki fyrir á sinn stað. 

alt    

Fyrirhugað er stækkun á matsal og eldhúsi og hljómlistardeild hefur tekið til starfa í húsnæðinu þar sem verkmenntadeildin er. Sannarlega mikill uppgangur og magnað starf hjá frábæru fólki. 

alt

Sagt er að ein mynd segi meira en þúsund orð. Hvað þá þessar tvær myndir!

alt

Þessi stúlka er nemandi í Ecole ABC de Bobo. Allir nemendur skólans búa í fátækrahverfinu Quenzenville í útjaðri borgarinnar Bobo Dioulasso sem er næst stærsta borgin í Búrkína Fasó með um hálfa milljón íbúa. Hinrik Þorsteinsson, annar forstöðumanna skólans, sagði eitt sinn í viðtali að "innfæddir hjálpuðu okkur að velja nemendurna þegar skólastarfið hófst. Í okkar augum voru allir bláfátækir og sumir voru allslausir og þeir fengu inngöngu í skólann. Það er það sem ABC stendur fyrir; að hjálpa þeim sem eiga enga von". 

Það á ekki að teljast til forréttinda að sitja á skólabekk en í mörgum tilfellum er það sorglega staðreyndin. 

Myndirnar af stúlkunni segja meira en orðin hér á undan geta. Sú fyrri er tekin áður en hún hóf nám í ABC skólanum. Augun hafa öðlast líf, skeifan er farin og fallega brosið skín í gegn. Birtan er allsráðandi. 

Menntun gefur von. 

 


Nashiba er sjö ára gömul stúlka sem er í skóla á vegum ABC barnahjálpar í Úganda. Hún á fimm systkini og eitt þeirra nýtur einnig stuðnings til náms. Móðir þeirra er ekkja og hún eldar maís og gengur í hús og reynir að selja til að þéna smá pening. Hann er engan veginn nógu mikill til að sinna grunnþörfum fjölskyldunnar.

Fjölskyldan býr í litlu herbergi og lúxus eins og rafmagn og rennandi vatn eru utan þeirra seilingar. Börnin þurfa að ferðast dágóðan spöl til að sækja vatn og salernisaðstöðunni er deilt með fimm öðrum fjölskyldum sem búa á svæðinu.

Menntun er grundvallaratriði fyrir velgengni og eina leiðin til að brjótast út úr fátæktinni. Móðir Nashibu var nærri búinn að gefa upp alla von um menntun fyrir börnin sín og hún er gríðarlega þakklát stuðningsaðilum barna sinna.

Stuðningur ykkar gefur von þar sem vonleysi ríkir. 

 

alt  alt

 

Tracy er níu ára gömul stúlka og hún stundar nám í skóla á vegum ABC barnahjálpar í Úganda. Hún er bráðgáfuð og hreinlega elskar að ganga í skóla. Tracy býr með móður sinni og þremur systkinum í tveggja herbergja húsi. Þar er ekkert rafmagn og notast þarf við kertaljós þegar kvöldar til að lýsa upp heimilið. Vatn þarf að sækja í brunn í nokkur hundruð metra fjarlægð og það gerir Tracy á hverjum degi ásamt því að hjálpa til við þvott og eldamennsku eftir að skóladegi lýkur.

Móðir hennar þénar örlítinn pening með því að þvo þvott nágranna í þorpinu og stjúpfaðir Tracy fær um 115 krónur á dag fyrir vinnu sína sem almennur verkamaður. Saman þéna þau engan veginn nógu mikinn pening til að kosta skólagöngu Tracy. Ekki er vitað hvar líffræðilegur faðir hennar er niðurkominn. 

Bjartsýnin ríkir þó hjá fjölskyldunni og móðir Tracy er styrktaraðila dóttur sinnar afar þakklát. „Styrktarkerfi ABC færir fjölskyldum von um betri framtíð í gegnum menntun barnanna“, segir hún og vill skila kæru þakklæti til stuðningsaðila Tracy. 

        alt  alt

Moses er sjö ára gamall strákur sem býr í Úganda. Hann á sex systkini og hann býr í húsi með þremur litlum herbergjum og engu eldhúsi. Öll eldamennska þarf að fara fram í stofunni. Josephine, mamman, er eina fyrirvinnan eftir að faðirinn stakk af í faðm yngri konu og hann veitir engan stuðning. Josephine neyddist til að taka lán til að hafa efni á grunnþörfum fjölskyldunnar en þegar hún gat ekki staðið við greiðslur var henni stungið á bak við lás og slá. Elsti sonurinn, Kevin, sá enga aðra leið en að hætta í skóla og fara að vinna til að sjá fjölskyldunni farborða.

Eftir nokkurra mánaða fangelsisvist var Josephine sleppt úr haldi en nú hefur heilsu hennar hrakað all verulega. Hún vinnur nú erfiðisvinnu og þénar um 115 krónur á dag og dugar það fyrir einni máltíð á línuna á dag. Börnin deila tveimur rúmum og nota gömul teppi sem yfirbreiðslu. Til að nálgast vatn ferðast þau um 500 metra í þorp þar sem brunnur er.

 

Þrátt fyrir alla erfiðleikana er fjölskyldan þakklát fyrir sitt og horfir björtum augum á framtíðina. Moses er í skóla á vegum ABC barnahjálpar og tvö systkini hans einnig. Á einni myndinni má sjá stolt börnin í nýju skólabúningunum sínum og þau eru uppfull af væntingum fyrir framtíðina. Josephine vildi koma á framfæri kærri kveðju til styrktaraðila barna sinna og þakka þeim kærlega fyrir að veita börnum sínum tækifæri til að mennta sig. „Með góðri menntun er ekkert utan seilingar“, segir hún og það er hverju orði sannara. 

 

      alt       alt

Hafa samband

ABC barnahjálp
Víkurhvarfi 2
203 Kópavogi

Opið 9 - 16 virka daga


Sími: 414 0990
Tölvupóstur: