Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

Árleg söfnun ABC barnahjálpar, Börn hjálpa börnum, stóð yfir dagana 16. mars til 9. apríl og gengu grunnskólabörn í heimili og fyrirtæki með söfnunarbauka. Söfnunin fagnaði merkum áfanga en hún var haldin í tuttugusta sinn. Okkur þykir ánægjulegt að tilkynna að alls söfnuðust 7.987.020 krónur til styrktar starfinu.

alt

Söfnunarfénu verður ráðstafað til áframhaldandi uppbyggingar á starfsemi ABC í Afríku og Asíu.

alt

Við þökkum þessum mikilvægu sendiherrum starfsins kærlega fyrir okkur. Meðfylgjandi mynd var teiknuð af nemanda í Oddeyrarskóla á Akureyri. Á henni stendur "gjöf sem gerir gæfumun" og það er hverju orði sannara. 

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson setti formlega af stað söfnunina Börn hjálpa börnum í Áslandsskóla í Hafnarfirði í dag. Þessi árlega söfnun ABC barnahjálpar er unnin í samstarfi við grunnskóla landsins og er nú haldin í tuttugasta skiptið. Frá upphafi hafa nemendur safnað rúmlega 120 milljónum króna til styrktar fátækum börnum í fjarlægum löndum.

   

„Það getur enginn skipað okkur að hjálpa til eða gera góðverk. Við veljum að gera það sjálf,“ sagði Guðni þegar hann hélt smá tölu fyrir nemendur Áslandsskóla. Svo vísaði hann í að allir réðu sínu áleggi sjálfir á flatbökur sínar. Forseti setti svo fyrstu seðlana í söfnunarbauka hjá nemendum Áslandsskóla. Að formlegum viðburði loknum gaf hann sér stund til að ræða við nemendur, veita viðtal og sitja fyrir á nokkrum myndum.

  

Söfnunin hefur verið hreint ómetanleg fyrir starfsemi ABC barnahjálpar. Fyrir söfnunarféð í gegnum árin hafa skólabyggingar verið byggðar og hægt hefur verið að sinna miklu viðhaldi. Keypt hafa verið húsgögn, skrifborð, stólar og rúm sem hafa nýst öllum skólunum. Eitt sinn var söfnunarféð notað til matarkaupa fyrir skólabörnin og þá voru keyptir um 165.000 matarskammtar. Á síðasta ári söfnuðust tæpar 8 milljónir króna og fóru m.a. í uppbyggingu heimavistar í Pakistan, efnafræðistofu í ABC skólanum í Nairobi í Kenýa og til uppbyggingar heimavistar í ABC skólanum í Namelok í Kenýa. Það sem safnast núna mun vera ráðstafað til að styrkja innviði skólastarfs ABC í Afríku og Asíu.

Tala barna sem eru útilokuð frá skólagöngu er óhuggulega há en hún er vel yfir 100 milljónir á heimsvísu. Án hjálpar í formi menntunar eru þau ófær um að brjótast út úr vítahring fátæktar. Nemendur í grunnskólum á Íslandi leggja sitt svo sannarlega á vogarskálarnar og við hjá ABC barnahjálp þökkum þessum mikilvægu sendiherrum starfsins kærlega fyrir þeirra aðstoð.

Hægt er að leggja söfnunni lið með því að leggja inn á reikning: 0515-14-110000 Kt: 690688-1589 

Inga Eiríksdóttir starfaði sem sjálfboðaliði á vegum ABC barnahjálpar í Úganda sumarið 2015. Í fyrsta tölublaði tímarits ABC skrifaði hún „ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að geta eytt síðastliðnu sumri sem sjálfboðaliði hjá ABC í Úganda. Það var hreint út sagt frábær lífsreynsla.“

alt

Hún fékk marga nemendur í ABC skólunum til að skrifa niður á blað hvers þau óska sér í lífinu og gaman er að rifja upp hvað nokkur börnin skrifuðu.

„ég heiti Kirumira Dissan. Ef ég vex úr grasi vil ég verða flugmaður því þeir fá mikla peninga og ég stend mig best í stærðfræði og félagsfræði. Ég les mikið svo ég fái góðar einkunnir í öllum fögunum og ég vil ferðast til annarra landa. Ég vil vita meira um flugvélar og ég mun fara vel með þekkinguna“.

alt

„ég heiti Nampiima Catherine. Ég er í sjöunda bekk og ég er hrifnust af félagsfræði og ef ég vex úr grasi og klára framhaldsskólann vil ég verða flugmaður. Ástæðan fyrir því er að flugmenn fara frá einu landi til annars og fá heilmikla peninga fyrir það.

alt

„Ég heiti Lukwago Shafic. Ég er nemandi í ABC skólanum. Að námi loknu vil ég verða skurðlæknir því ég hef meiri áhuga á vísindum en öðrum greinum. Þegar ég fer í framhaldsnám lofa ég að standa mig vel í líffræði og eðlisfræði svo ég verði farsæll í lífinu. Ég hef áhuga á vísindum því ég hef gaman að því að sjá lækna bjarga sjúklingum og ég trúi því að ég muni gera það.

alt

Þökk sé stuðningi til náms eru þessum börnum allir vegir færir. Allar líkur eru á því að innan fárra ára verði tveir flugmenn og einn skurðlæknir að greina frá reynslu sinni sem nemendur í ABC skólunum og árétta mikilvægi þess að allir hafi aðgang að menntun.

Meðfylgjandi er hlekkur á rafræna útgáfu fyrsta tímaritsins en þar má lesa pistil Ingu í heild sinni ásamt fleiri draumum nemenda í skólum ABC.

Tímarit ABC barnahjálpar # 1

Dossi Hyacinthe Wilfried er nemandi í ABC skólanum í Bobo í Búrkína Fasó. Hann nýtur þeirrar sérstöðu að vera fyrsti nemandinn sem fékk úthlutað plássi í skólanum.

Hinrik Þorsteinsson og Guðný Jónasdóttir, kölluð Gullý, eru forstöðumenn skólans. Þau voru beðin um að vera fulltrúar starfs ABC í landinu og héldu út árið 2007. Fyrirtækið Atorka Group gaf ABC peninga til uppbyggingar skólastarfs þar og notast var við gamalt skólahúsnæði. Hinrik og Gullý nutu mikillar aðstoðar frá innfæddum við að velja rúmlega 100 börn til að hefja nám. „Í okkar augum voru allir bláfátækir og sumir voru allslausir og þeir fengu inngöngu í skólann. Það er það sem ABC stendur fyrir; að hjálpa þeim sem eiga enga von,“ sagði Hinrik í viðtali.

alt

Hinrik og Gullý gistu hjá vinafólki þegar þau voru að koma skólanum í gang. Beint á móti húsinu bjó fjölskylda á stórri lóð í mörgum kofum. Þar var maður með börnin sín og barnabörn. Ein af dætrum hans var einstæð móðir og átti tvær stúlkur og einn dreng að nafni Dossi og var hann sá fyrsti sem varð fyrir valinu í skólann væntanlega. „Hann fékk að fara í skólann og var þar með fyrsta barnið. Sonur okkur, sem þá var rétt um tvítugt, vildi styrkja hann til náms,“ segir Gullý. Þetta voru mjög erfiðar heimilisaðstæður hjá Dossi en í borginni Bobo Dioulasso er mjög stórt fátækrahverfi og ólæsi í landinu er með því mesta í heiminum.

„Dossi hefur spjarað sig mjög vel og þetta er prúður og góður strákur. Það er reisn yfir honum og hann er afar duglegur. Ég vænti mikils af honum í framtíðinni,“ segir Gullý. 

alt

Norræna skólahlaupið er árlegur viðburður og fór fyrst fram árið 1984. Allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt og hefur þátttaka íslenskra grunnskólanemenda verið mjög góð í gegnum árin. Með þessum viðburði er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Í skólahlaupinu árið 2007 ákváðu kennarar í Giljaskóla á Akureyri að safna áheitum og styrkja til náms tvo nemendur hjá ABC barnahjálp. Sú söfnun hefur ávallt verið tengd skólahlaupinu en breyting hefur verið á fyrirkomulaginu undanfarin tvö ár þar sem söfnunin hefur hafist að hlaupi loknu.

Nemendur hlaupa einn til fjóra „skólahringi“ og er einn hringur um 2.5 kílómetrar. Nemendur og starfsmenn eru hvattir til að gefa smá aur í söfnunarbauka og þökk sé þeim framlögum hefur verið hægt að greiða fyrir skólagöngu tveggja barna í námi á vegum ABC. Árið 2007 voru Udaya Lakshmi Gajjelagunta og Vincent Obita styrkt til náms. Udaya er frá Indlandi og Vincent er frá Úganda og hafa nemendur og starfsmenn Giljaskóla styrkt þau allan þeirra skólaferil. Þau hafa lokið sínu námi í ABC skólunum og í dag styrkir Giljaskóli tvo nýja nemendur; þær Venkateswaramma Ramma og Kevine Jenneth Akello en þær eru einnig frá Indlandi og Úganda.

                                        alt    alt

Nemendur í Giljaskóla fá alltaf kynningu á börnunum sem þeir styrkja og áhuginn og viljinn til að halda því áfram lýsir sér vel með mikilli þátttöku í árlega hlaupinu og áheitum sem ár eftir ár eru nægilega mikil til að viðhalda framfærslunni .Nemendur ABC skólanna senda ávallt jólakort og nemendur Giljaskóla hafa sömuleiðis útbúið kort og nú síðast sendu þeir einnig pakka með smávegis af ritföngum handa Venkateswaramma og Kevine.

alt

Hér er svo sannarlega hlaupið til góðs og við þökkum nemendum og starfsmönnum Giljaskóla fyrir þessa dýrmætu gjöf sem gefur fátækum börnum tækifæri á góðri framtíð. 

Hafa samband

ABC barnahjálp
Víkurhvarfi 2
203 Kópavogi

Opið 9 - 16 virka daga


Sími: 414 0990
Tölvupóstur: