Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

Kærar þakkir til stuðningsaðila, sjálfboðaliða og velunnara starfsins. 

alt

Nú er árið senn á enda og gaman að líta yfir farinn veg. Árið 2016 er tuttugasta og áttunda ár samtakanna og það var svo sannarlega gott. Við eigum okkur marga velunnara og njótum góðs af.

Bandarísku hjáparsamtökin Go Near Ministry stóðu fyrir söfnun á viðgerð á vatnsdælu á svæði ABC skólans í Namelok. Markmiðið var 1.2 milljónir króna og það náðist og vel það. Íslenskur velunnari sendi nemendum í Úganda gullfallega kjóla og stúlkurnar voru hæstánægðar þegar þær mátuðu þá. Alls söfnuðu 42 hlauparar áheitum fyrir ABC í Reykjavíkurmaraþoninu og 115.000 krónur söfnuðust. Þrjár yngismeyjar komu óvænt á skrifstofu okkar og færðu okkur 13.664 krónur sem þær söfnuðu með því að ganga í hús í Garðabænum. Nemendur í Álfhólsskóla unnu frábært verkefni um ABC undir heitinu „Verum hjálpsöm“ og uppskáru þeir hæstu einkunn fyrir. Nemendur í Brekkubæjarskóla á Akranesi héldu bingó og gáfu ABC ágóðann sem var 30.000 krónur. Ótrúlega flott framtak hjá þessum flottu nemendum.

alt

Að lokum má svo ekki gleyma okkar mikilvægu sendiherrum sem eru nemendur grunnskóla landsins en árlega söfnunin Börn hjálpa börnum fór fram dagana 1. til 17. apríl. Alls söfnuðust 7.893.460 krónur og við erum þessum nemendum óendanlega þakklát.

Fyrirtækið Tengill ehf. gaf ABC 91 tölvu og voru þær sendar til skólans í Búrkína Fasó.

Sjálfboðaliðar heima og utan aðstoðuðu við ýmis verkefni en starfsmenn Íslandsbanka í útibúinu í Mjódd gáfu allir vinnu sína til Nytjamarkaðarins þökk sé verkefni sem heitir Hjálparhönd. Í verkefninu gefst starfsmönnum tækifæri til að vinna einn dag á ári fyrir hjálparstarf að eigin vali. Sjálfboðaliðar ásamt fleirum unnu hart að því að koma ýmsum framkvæmdum í gang í Búrkína Fasó en uppgangurinn á svæðinu er mjög mikill. Þar er m.a. bygging nýs framhaldsskóla langt á veg komin, nýrri vatnsdælu var komið fyrir, sólarsellum fjölgað verulega og fleira.

                                 alt  alt

Við eigum svo sannarlega góða að og við þökkum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. 

Árið 2016 var enn eitt gott ár í sögu ABC barnahjálpar og sem fyrr þökkum við okkar fjölmörgu stuðningsaðilum og velunnurum. 

Nýja ABC blaðið er komið út. 

alt

Meðal efnis er viðtal við Þráinn Skúlason sem ferðast hefur tvisvar sinnum til Pakistan og heimsótt skóla ABC þar í landi. Að auki er spjall við Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfund sem er styrktarforeldri, viðtal við sjálfboðaliða sem störfuðu í ABC skólunum í Úganda og jólakveðja frá forstöðumanni Heimilis litlu ljósanna á Indlandi. Ásamt fleiru.

Þetta er þriðja tölublað tímarits ABC og hægt er að skoða þau öll í rafrænu formi með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan. 

Þriðja tölublað

Annað tölublað

Fyrsta tölublað

 

Börnin sem fara í nám í ABC skólunum í stuðningslöndum okkar fæddust inn í fátækt. Það sem þau þurfa er tækifæri. Fátæk börn eiga líka að fara í skóla. Án menntunar er ekki hægt að vinna sig upp úr fátækt. Börnin ráða því ekki hvar þau fæðast en ef þau fá tækifæri í lífinu standa þau jafnfætis þeim sem fæðast ekki inn í fátækt.

Stórkostlegir hlutir gerast þegar börn fá tækifæri. Eitt af stuðningsbörnum okkar, Kevin Bahati frá Kenýa, hefur náð undraverðum árangri sem Gospel söngvari og öðlast heimsfrægð. Hann kom úr sárri fátækt og átti í engin hús að venda þegar hann komst inn í ABC skólann í Star of Hope í Kenýa.

alt

Mariel Catabay ólst upp á Payatas svæðinu í Manilla á Filippseyjum þar sem allt of margar fjölskyldur sjá sér farborða með því að gramsa í ruslahaugum og reyna að selja varning til að vinna sér inn pening. Mariel starfar í dag sem náms- og starfsráðgjafi.

Shahid Nazir er í dag í læknaþjálfun og hefur lokið námi í tölvuvísindum. Hann ólst upp í Farooqabad í Pakistan og fjölskyldan gat ekki kostað skólagöngu hans en ABC skólinn á svæðinu tók við honum og hann fékk styrk til náms.

                alt  alt

Kevin, Mariel og Shahid eru bara þrjú dæmi. Fyrrum nemendur ABC skólanna skipta tugþúsundum og þeir hafa haldið út í tilveruna að námi loknu með bjartsýni að leiðarljósi. Þeir standa jafnfætis þeim sem hafa fengið tækifæri í fæðingargjöf og það er mikil gjöf.

Grace Nankinyi er ABC nemandi. Hún er af Masaai ættum og er í ABC skólanum í Namelok í Kenýa. Hún vill verða læknir. Hún á fimm systkini og fjölskyldan býr við mikinn skort. Ef hún stundar nám sitt af samvisku er ekkert sem segir að hún muni ekki verða læknir og geta séð fyrir sjálfri sér og hjálpað fjölskyldu sinni að komast á betri kjöl. Hún þarf bara þetta tækifæri.

alt

Fjöldamörg börn eru í sömu stöðu og Kevin, Mariel og Shahid voru og með stuðning er hægt að gefa þeim þetta tækifæri í lífinu. Að gefa tækifæri er gjöf sem ómögulegt er að meta til fjár. 

Það eru alltaf einhverjir sem eiga mikið en samt viljum við gefa þeim jólagjöf. Þá er gott að hafa í huga Gjafabréf frá ABC barnhjálp. Þar er hægt að festa kaup á máltíð fyrir börn, innlögn fyrir skólavist, kaupa geit og fleira. Gjöfin kemur sér vel fyrir börnin sem þurfa á hjálp að halda.

    alt alt

 

Svo erum við alltaf með jólakort, stök súkkulaðistykki sem fást innpökkuð og áletraða penna sem fást á skrifstofu ABC.

alt

 

Hafa samband

ABC barnahjálp
Víkurhvarfi 2
203 Kópavogi

Opið 9 - 16 virka daga


Sími: 414 0990
Tölvupóstur: