Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

Vegna síhækkandi matvælaverðs höfum við þurft að hækka mánaðarlegt gjald við óstudd börn í 3.000 kr fyrir dagskólabarn og 4.500 kr fyrir heimavistarbarn. Þeir stuðningsaðilar sem sjá sér fært að hækka framlög fyrir sín börn eru vinsamlega beðnir um að láta okkur vita.

Staðsetning Filippseyja á korti

Skólakerfið á Filippseyjum er sniðið eftir amerísku skólakerfi og kennt er á ensku. Skólarnir skiptast í ríkisskóla og einkarekna skóla. Skólastigið skiptist í forskóla (pre-primary), 6 ár í barnaskóla (primary school), fjögur ár í unglingadeild/menntaskóla (secondary school). Síðan tekur við háskóli (college) sem er allt frá 4 ára námi upp í 8 ár.

Á Filippseyjum er menntun í ríkisskólum ókeypis allt upp í 6. bekk eða 12 ára bekk en mörg börn fara ekki í skóla. Ástæðan fyrir því er að foreldrar geta ekki borgað kostnaðinn sem fylgir skólagöngunni svo sem mat, strætó í skólann, bækur og þess háttar. Mikill fjöldi fátækra barna hættir því í skóla. Skólarnir eru tvísetnir, skólastofurnar eru troðfullar og eru yfirleitt frá 65-95 börn í hverjum bekk. Skólabækur eru af skornum skammti og mikill skortur er á kennurum í ríkisskólunum. 

Mikið hlutfall barna ljúka ekki barnaskóla og unglingaskóla. Af þessum ástæðum ákvað Barnmissionen í samvinnu við ABC að fara af stað með stuðningskerfi fyrir fátæk börn á Filippseyjum.

Barnmissionen
Barnmissionen var stofnuð árið 1983 af Svíanum Sigvard Wallenberg. Árlega fá yfir 300.000 börn á Filippseyjum og í Úkraínu ýmis konar hjálp í gegnum starf Barnmissionen. Yfirmaður samtakanna er Bo Wallenberg sem tók við starfinu af föður sínum.

Barnmissionen hefur verið samstarfsaðili ABC frá árinu 1990. Í samstarfi við Barnmissionen og með hjálp stuðningsaðila ABC fá í dag um 450 börn úr fátækum fjölskyldum á Filippseyjum tækifæri til að mennta sig.

Barnmissionen rekur forskólann Molfried Center í Payatas, Quezon City í Manilla. Forskólinn tekur inn börn á aldrinum 4 til 6 ára og þar læra þau að þroska persónuleika sinn, lesa, skrifa, teikna og leika. Börnin fá ókeypis menntun, skólabúning, bækur og skóladót, heilsugæslu og heita máltíð. Börnin eru fram að fjórða bekk og fara þá í ríkisrekna skóla sem eru ókeypis. Þá fá þau sömu fríðindin úr styrktarkerfinu. 

Auk þess að reka forskólann er Barnmissionen með stuðningskerfi fyrir börn frá barnaskóla og allt upp í háskóla. Börnin koma úr hverfunum San Juan, Quezon City og Rodriguez og ganga í mismunandi ríkisskóla. Með stuðningi stuðningsaðila frá Íslandi fá börnin og fjölskyldur þeirra mánaðarlega upphæð sem notuð er til að borga fyrir skólabúning, skólabækur, mat, flutning (strætó) í og úr skóla og jólagjafir fyrir alla fjölskylduna. Auk þess fá háskólanemendurnir ákveðna upphæð í byrjun hverrar annar sem borga hluta skólagjaldanna.

Fjölskylduhagir
Fjölskyldur barnanna sem ABC styður á Filippseyjum eru mjög fátækar. Þær búa flestar við ruslahaugana í Manila í hreysum byggðum úr spítnarusli með bárujárnsþaki og moldargólfi. Fæstir hafa rennandi vatn né rafmagn. Eldunaraðstöðu er yfirleitt deilt með mörgum öðrum fjölskyldum og þvotturinn er þveginn í húsasundum. Kynferðisleg misnotkun er mjög algeng í Manilla. Fæstar þessara fjölskyldna hafa efni á því að senda börnin sín í skóla því allur peningur sem fjölskyldan vinnur sér inn fer í mat.

Upplýsingar um landið

Lýðveldið Filippseyjar er ríki í Suðaustur-Asíu og fimmta stærsta eyríki heims. Filippseyjar fengu sjálfstæði frá Bandaríkjunum árið 1946 eftir að hafa verið hernumdar af Japönum í Heimsstyrjöldinni síðari. Í landinu búa um 92 milljónir manna og er það því tólfta fjölmennasta í heimi. 

Filippseyjar eru þriðja fjölmennasta eyríki heims og er þéttleiki landsins álíka mikill og í Japan. Þar eru töluð 171 tungumál en nokkur þeirra eru einungis töluð af mjög fámennum hópum manna. 

 Höfuðborgin Manilla er ellefta fjölmennasta borg heims. Meðalhitastigið er 26.5 gráður á celcíus og loftið mjög rakt. Það eru þrjár árstíðir; heiti tíminn eða sumar frá mars til maí, regntíminn frá júní til nóvember og kaldi tíminn frá desember til febrúar. 

Hafa samband

ABC barnahjálp
Víkurhvarfi 2
203 Kópavogi

Opið 9 - 16 virka daga


Sími: 414 0990
Tölvupóstur: