Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589
Smelltu á fyrirsagnirnar hér fyrir neðan til að opna kafla í skipulagsskrá ABC.
Skipulagsskrá ABC I kafli
I. KAFLI
1. gr. Skilgreining og heiti, heimili og varnarþing
ABC BARNAHJÁLP á Íslandi er sjálfseignarstofnun með heimili og varnarþing í Reykjavík, Íslandi.

ABC BARNAHJÁLP á Íslandi starfar undir regnhlíf ABC BARNAHJÁLPAR International sem er með höfuðstöðvar á Íslandi, og starfar skv. skipulagsskrá ABC BARNAHJÁLPAR International.

2. gr Eðli ABC
ABC BARNAHJÁLP er byggð á kristnum gildum með kærleiksboðorðin í huga að okkur beri að elska náungann eins og okkur sjálf og bera hvers annars byrðar þannig að við sýnum í verki að Guð er faðir föðurlausra og að hann réttir þeim hjálparhönd sem eru þurfandi og þjáðir.

3. gr. Tilgangur ABC
Tilgangur ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi er að styðja fólk, einkum börn og unglinga, til sjálfbærni. ABC BARNAHJÁLP á Íslandi má láta neyðarhjálp til sín taka, einkum ef það er þáttur í að ná fyrrgreindu markmiði.

4. gr. Hvernig tilgangi skal náð
Tilgangi sínum hyggst ABC BARNAHJÁLP á Íslandi ná með því að taka að sér verkefni sem ABC BARNAHJÁLP International hefur samþykkt og forgangsraðað. Í því sambandi mun ABC BARNAHJÁLP á Íslandi leita eftir samstarfi og stuðningi allra sem vilja leggja starfinu lið. Nánar tiltekið felast verkefnin í eftirfarandi:
•    Að mennta börn og með fræðslustarfsemi ýmiss konar sem er eitt meginverkefna ABC BARNAHJÁLPAR International.
•    Að eiga samstarf við heimamenn í hverju landi þar sem starfað er.
•    Að eiga samstarf við ABC BARNAHJÁLP International, m.a. um að byggja heimavistir fyrir börn, skóla og barnaheimili svo og að kaupa land undir slíka starfsemi.
•    Að koma með óskir og tillögur um verkefni.
•    Að safna stuðningsaðilum fyrir þurfandi börn í þeim löndum sem ABC BARNAHJÁLP International starfar. Þetta er meginverkefni ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi.
•    Að reka skrifstofu og sjá um utanumhald stuðningsaðila og styrktarbarna. Hlutverk skrifstofu er að veita stuðningsaðilum upplýsingar, auðvelda stuðningsaðilum að greiða styrktarframlög, sjá um bókhald o.s.frv.
•    Að laða sjálfboðaliða að til að sinna starfinu á þeim sviðum sem það er mögulegt.
•    Að afla fjár með því að leita eftir frjálsum framlögum og ýmis konar fjáröflunarstarfsemi.

5. gr. Rekstur stofnunarinnar
Samhliða starfsemi ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi skal vera starfandi Vinafélag ABC sem mun leitast við að kosta rekstur starfsins á Íslandi.

ABC BARNAHJÁLP á Íslandi skal hafa aðskilda reikninga fyrir rekstur starfsins annars vegar og hins vegar fyrir framlög til styrktarbarna og verkefna.

ABC BARNAHJÁLP á Íslandi skal millifæra söfnunarfé og framlög vegna styrktarbarna inn á sérstakan gjaldeyrisreikning ABC BARNAHJÁLPAR International á Íslandi merktan ABC BARNAHJÁLP á Íslandi. ABC BARNAHJÁLP International mun síðan senda fjármunina áfram til viðkomandi landa.

ABC BARNAHJÁLP á Íslandi skal senda ársreikning stofnunarinnar til ABC BARNAHJÁLPAR International ár hvert og fá á móti fréttir af starfinu og endurskoðað yfirlit yfir gjaldeyrisreikninginn og ráðstöfun fjár af honum.
Skipulagsskrá ABC II kafli

II. KAFLI
6. gr. Stjórn stofnunarinnar
Æðsta vald í málefnum stofnunarinnar er stjórn hennar og ber hún ábyrgð á fjárvörslu hennar.

Ef ABC BARNAHJÁLP á Íslandi áskotnast á einhvern hátt fasteignir eða önnur verðmæti þá þarf samþykki 5 stjórnarmanna til að selja þau eða veðsetja.

Stjórnin skal skipuð 7 stjórnarmönnum og 3 til vara. Skulu varamenn taka sæti í fyrirfram ákveðinni röð. Stjórnarmenn þessir voru upphaflega valdir af undirbúningshópi. Stjórnin sér sjálf um að endurnýja sig. Stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Heimilt er að endurkjósa stjórnarmenn eins oft og þurfa þykir en þó skal leitast við að endurnýja stjórnina með því að skipta út stjórnarmanni fyrir nýjan ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti.  Meirihluta stjórnar þarf til að samþykkja nýjan mann í stjórn. Til að víkja manni úr stjórn þarf atkvæði fimm stjórnarmeðlima.
Stjórnarmenn skulu ekki þiggja laun hjá stofnuninni fyrir stjórnarstörf.

Stjórn ABC BARNAHJÁLPAR International hefur vald til þess að leysa upp stjórn ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi og að koma á nýrri stjórn í hennar stað, telji hún að hugsjón ABC BARNAHJÁLPAR eða skipulagsskrá þessari sé ekki framfylgt, svo og af öðrum ástæðum sem stjórn ABC BARNAHJÁLPAR International telur réttmætar.

7. gr. Stofnfé og stofnendur
Stofnfé ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi að upphæð 700.000 kr. er ávaxtað á hávaxtareikningi og var upphaflega lagt fram af stofnendum.
Stofnendur stofnunarinnar voru Georg Ólafur Tryggvason, Guðfinna Björnsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halldór Gunnar Halldórsson, Halldór Pálsson, Hannes Lentz, Hjalti Gunnlaugsson og Ólafur Gränz.

8. gr. Stjórnarfundir og boðun þeirra
Stjórnarfundir eru lögmætir þegar fjórir stjórnarmenn mæta og löglega er til þeirra boðað. Á stjórnarfundum ræður meirihluti atkvæða og hefur stjórnarformaður oddaatkvæði.
Boða skal til stjórnarfundar með 6 daga fyrirvara og telst hann þá löglega boðaður. Stjórnarfundur er löglegur ef allir mæta þrátt fyrir skamman fyrirvara. Formaður stjórnar má boða stjórnarfundi með skemmri fyrirvara telji hann ákvörðun ekki þola bið.

9. gr. Kynningarfundir
Á hverju ári skal haldinn kynningarfundur um starf ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi. Hann skal vera auglýstur og opinn almenningi. Á þeim fundi skulu ársreikningar kynntir.

10. gr. Verkaskipting stjórnar
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

11. gr. Fundargerð stjórnar
Stjórnin skal halda fundargerðir þar sem fram skulu koma allar ályktanir, ákvarðanir og niðurstöður stjórnarinnar.

Skipulagsskrá ABC III-IV kafli
III. KAFLI
12. gr. Breytingar á skipulagsskrá
Skipulagsskrá þessari verður ekki breytt nema með samþykki að lágmarki fimm stjórnarmanna og jafnframt samþykki stjórnar ABC BARNAHJÁLPAR International.

Breytingar á skipulagsskrá þessari þarfnast samþykkis Sýslumannsembættisins á Sauðárkróki.

IV. KAFLI
13. gr. Endurskoðun
Ársreikningar ABC skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem stjórn ABC velur.

14. gr. Upplýsingar um fjármál
Stjórn ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi skal tryggja að almenningur fái ávallt öruggan aðgang að upplýsingum um fjármál stofnunarinnar með gerð ársreiknings, upplýsingum á heimasíðu og fréttatilkynningum eða útgáfu fréttabréfs. Ársreikningar skulu jafnframt liggja frammi á skrifstofu ABC BARNAHJÁLPAR á Íslandi.
Skylt er stofnuninni að upplýsa um hvernig verðmæti sem henni hlotnast eru metin til fjár og eftir hvaða aðferðum hún flokkar útgjöld í rekstrarútgjöld og hjálparstarf.
Skipulagsskrá ABC V kafli og niðurlag
V. KAFLI
15. gr.Bókhald
Stofnunin skal halda bókhald og semja ársreikninga samkvæmt gildandi bókhaldslögum.
Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið.

16 gr. Niðurlagning stofnunarinnar
ABC BARNAHJÁLP á Íslandi verður ekki lögð niður nema með samþykki fimm stjórnarmanna á löglega boðuðum fundi og með samþykki stjórnar ABC BARNAHJÁLPAR International.
Niðurlagning stofnunarinnar þarfnast samþykkis Sýslumannsembættisins á Sauðárkróki.

17. gr. Staðfesting skipulagsskrárinnar
Skipulagsskrá þessi tekur gildi við samþykki stjórnar ABC barnahjálpar á Íslandi og Sýslumannsembættisins á Sauðárkróki og fellur þá eldri skipulagsskrá starfsins úr gildi.´

Reykjavík, 23. apríl 2007

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988.

Sýslumaðurinn á Sauðárkróki árið 2007