Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

Hægt er að styðja við starf ABC barnahjálpar með ýmsu móti. Framlög geta verið í formi peninga, vinnuframlags eða með kaupum á þeim vörum sem seldar eru til styrktar starfinu.

Styrkja barn

Algengasti stuðningurinn við starf ABC er í formi styrktarforeldris. Hægt er að styrkja barn eftir löndum, kyni eða jafnvel aldri og eru mánaðarlegar greiðslur frá 3.500 – 5.500 kr eftir því hvort barnið er í dagskóla eða á heimavist. Skemmtilegt getur verið fyrir fjölskyldur að taka að sér barn á svipuðum aldri og önnur börn í fjölskyldunni eða sem á jafnvel sama afmælisdag og annar fjölskyldumeðlimur. Þannig geta myndast skemmtileg tengsl og barnið verður hluti af fjölskyldunni. Engin kvöð er þó á því að mynda tengsl við barnið sem styrkt er og kjósa margir styrktarforeldrar að vera ekki í neinum persónulegum samskiptum við styrktarbarn sitt. Smelltu hér til að styrkja barn

Styrkja einstaka verkefni

Hægt er að leggja einstökum verkefnum lið hverju sinni með stöku fjárframlagi. Misjafnt er hvaða verkefni eru í gangi hverju sinni en meðal þeirra verkefna sem eru hvað algengust er bygging eða viðhald á nýjum skólum eða skólastofum, bygging eða viðhald á heimavistum, bygging á brunnum, bygging á leikvöllum, eldi á geitum eða hænum, ræktun matjurtargarða og fleira. Ekki eru alltaf upplýsingar um öll verkefni á heimasíðu ABC og því bendum við fólki á að hafa samband við skrifstofuna í gegnum tölvupóst eða síma og spyrjast fyrir um hvaða verkefni séu í gangi hverju sinni.

Neyðarsjóður

Fyrir þá sem vilja styrkja starfið á vettvangi en vilja ekki styrkja barn er mánaðarlegt framlag í neyðarsjóð ABC góður valkostur. Neyðarsjóðurinn er notaður til að brúa bilið í þeim verkefnum þar sem hlutfall óstuddra barna er of hátt og fjöldi styrktaraðila nægir ekki til að mæta kostnaði við rekstur skólans. Þannig rennur peningurinn úr neyðarsjóðnum þangað sem hans er mest þörf hverju sinni.
Smelltu hér til að gefa í neyðarsjóð

Styrkja rekstur ABC

Til að halda utan um öll þau verkefni sem ABC er með á vettvangi og hér heima þarf fjármagn. Til að komast hjá því að taka af framlögum styrktarforeldra og annarra stuðningsaðila var brugðið á það ráð að stofna sér rekstrarfélag sem heldur utan um skrifstofukostnað ABC á Íslandi. Rekstrarfélagið heitir Vinafélag ABC og heldur það úti öflugri fjáröflun til að geta staðið straum af öllum rekstrarkostnaði skrifstofu ABC hér heima. Auk fjáröflunar hefur fjöldi fyrirtækja gerst Vinafélagi ABC sem felur í sér mánaðarleg eða árleg framlög til rekstursins en án slíks stuðnings væri ekki hægt að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi. Ef þitt fyrirtæki vill taka þátt og gerast Vinafélagi bendum við þér á að hafa samband við skrifstofuna í gegnum tölvupóst eða síma.
Smelltu hér til að gefa í rekstur

Vörur til styrktar starfinu

ABC selur ýmsar vörur til styrktar starfinu en þar má fyrst nefna ABC súkkulaðið sem er til sölu í Nytjamarkaði ABC, á skrifstofunni og í fjölmörgum verslunum. ABC súkkulaðið fæst í 4 tegundum og er til í formi stakra platna sem og fallega innpakkað í sellófónpappír. Vinsælt hefur verið á meðal fyrirtækja að gefa starfsmönnum fallega innpakkað ABC súkkulaði fyrir jólin en með því móti gefur fyrirtækið starfsmönnum sínum gjöf sem hittir í mark og styrkir gott starf í leiðinni. Einnig má nefna prentuð og handgerð kort sem eru seld til styrktar starfinu. Öll framleiðsla og utanumhald er í höndum dyggra sjálfboðaliða og er hægt að finna ABC sölustandana í Húsasmiðjunni/Blómaval í Skútuvoginum, Hagkaup í Smáralind og Garðheimum. Aðrar vörur sem ABC er að selja eru bækur, geisladiskar, jólakort, skartgripir, sérortar vísur fyrir öll tækifæri, hrákökur í bakaríinu hjá Jóa Fel, úrval listmuna í Líf fyrir líf á Laugavegi 103 og margt fleira. Hægt er að nálgast þessar vörur á skrifstofu ABC í Síðumúlanum, hjá Jóa Fel og í Líf fyrir líf en einnig er takmarkað úrval til sölu á nytjarmörkuðum ABC.

Sjálfboðaliðar

Sjálfboðaliðar mynda grunninn sem starf ABC á Íslandi hvílir á. Ótalmargir einstaklingar leggja starfinu lið með einhverju móti og má þar nefna utanumhald bauka, sala á súkkulaði og kortum, pökkun súkkulaðis, gerð korta og aðstoð í Nytjamarkaði ABC Ef þú vilt leggja starfinu lið með einhverju móti bendum við þér á að hafa samband við skrifstofu ABC eða beint við Nytjamarkaðinn.