Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589
pakistanLocation

Opinbera nafn Pakistan er “Islamic Republic of Pakistan”. Höfuðborgin er Islamabad. Ummál landsins er 803,940 ferkílómetrar. Strandlengjan er 1.046 kílómetar og liggur að Arabíuflóa til suðurs. Pakistan liggur að Afganistan og Íran frá vestri, Indlandi frá austri og Kína frá norð-austri. Íbúafjöldinn í Pakistan er kominn yfir 200 milljónir manns. Það er sjötta fjölmennasta ríki heims og fjölgar íbúum landsins mjög ört. Ólæsi er sennilega stærsta vandamálið sem þjóðin á við að glíma í dag. Áætlað er að um níu milljónir barna á grunnskólaaldri gangi ekki í skóla, þar af 5,9 milljónir stúlkna. Tveir þriðju hluti íbúanna búa í dreifbýli og er áætlað að 85,6% stúlkna og 72,6% drengja í dreifbýli gangi ekki í skóla. Ólæsi er sérstaklega hátt meðal stúlkna og kvenna.
Margar aldir af arðráni í hinum ýmsu myndum hefur skilið íbúana eftir vansæla og bölsýna. Þeir berjast fyrir því að halda lífi í fjölskyldunni. Fátækt er sérstaklega mikil meðal fólks í sveitum landsins.

 

ABC Children’s Aid í Pakistan

ABC barnahjálp Pakistan var stofnuð í júlí 2005, en upphafsmaður starfsins var kristinn pakistani Sharif A. Ditta að nafni. Sharif, sem lést 24. febrúar árið 2013, hafði unnið að skólastarfi allan sinn starfsferil og var kominn á eftirlaun. Synir Sharifs byggðu hús fyrir föður sinn þar sem þeir ætluðust til að hann ætti áhyggjulaus efri ár en um leið og húsið var tilbúið flutti hann í herbergi hjá syni sínum og breytti húsinu í skóla. Sharif var úr fátæku þorpi en fékk stuðningsaðila sem studdu hann til náms. Hann náði að ljúka háskólanámi og einnig öll hans börn. Yngri bróðir hans fékk hins vegar ekki tækifæri til að mennta sig og er ólæs. Ekkert af hans börnum hefur gengið í skóla og eru einhver þeirra í skuldaánauð. Sharif skildi því vel mikilvægi menntunar og hafði brennandi hugsjón að hjálpa sem flestum að mennta sig. Draumurinn varð að veruleika með tilkomu Íslendinga í gegnum ABC barnahjálp.

Í dag hefur ABC barnahjálp í Pakistan byggt 6 skóla með söfnunarfé og gjöfum frá Íslendingum og þrír skólar til viðbótar eru reknir í leiguhúsnæði. Alls stunda um 2.600 börn nám í ABC skólunum í Pakistan og um 550 þeirra búa á heimavistinni. ABC skólarnir veita fáækum börnum ókeypis menntun, skólagögn og skólabúning. Þeir hafa haft gríðarlega góð áhrif á hugarfar fátækra foreldra sem nú kjósa frekar að senda börnin í skóla en að láta þau þræla fyrir smáaur í verksmiðjum.

ABC skólarnir eru kristnir skólar. Börnin sem ganga í skólana eru flest frá kristnum heimilum en kristnir í Pakistan eru aðeins um 1.6% þjóðarinnar. Trúarleg mismunun í Pakistan er mjög mikil og kristnu fólki er reglulega mismunað. Þeim er oft neitað um störf, lán, húsnæði og annað vegna trúar sinnar. Kristnum Pakistönum finnst erfitt að senda börn sín í ríkisskóla því þeir hafa mjög sterka íslamska námsskrá og börnunum er mismunað í skólunum.

Börnin sem tekin eru inn í skólana koma öll úr gríðarlegri fáækt og í flestum tilfellum hafa foreldrar þeirra ekki efni á að senda þau í skóla. Oft eru líka aðstæður þannig að börnin þurfa að vinna til að hjálpa til við að framfleyta fjölskyldunni. Ef óvænt útgjöld koma upp hjá þessum fátæku fjölskyldum, t.d. ef einhver veikist og þarf læknisþjónustu, sem er mjög dýr, þarf fjölskyldan að taka lán og setur þá barnið sitt í vinnu hjá skuldareiganda sem tryggingu gegn því að lánið sé greitt. Í flestum tilfellum losnar barnið aldrei úr þessari vinnuþrælkun aftur.

Farooqabad
ABC barnahjálp hóf starf sitt í Pakistan í Farooqabad í Sheikupura héraði í ágúst 2005. Þá hafði Sharif A. Ditta rekið þar skóla í eigin húsnæði í nokkur ár. Fyrsta verkefni ABC í Pakistan var að taka við rekstri þess skóla, en fljótlega varð húsnæðið allt of þröngt. Börnunum fjölgaði stöðugt og ekki var hjá því komist að byggja stærra skólahús. Rúmfatalagerinn hljóp undir bagga og kostaði byggingu skólans og var hún vígð í desember árið 2006.  Í dag eru 390 börn í þessum skóla frá leikskóla og upp í 10. bekk. Mörg hafa þegar útskrifast og stunda nám í hinum ýmsu háskólum.

Machike heimavistarskólinn
Heimavistarskólinn í Machike er staðsettur í Sheikhupura héraðinu. Skólinn var settur á laggirnar árið 2009 í bráðabirgðarhúsnæði. Í skólanum fá nemendur húsnæði, fullt fæði og heilsugæslu ásamt kennslu. Í skólanum er boðið upp á kennslu frá 1. bekk og upp í 10. bekk. Eftir útskrift geta nemendur farið í ýmsa skóla. Í skólanum búa alls um 600 nemendur, bæði stúlkur og drengir. 

Byggingu á heimavist stúlkna lauk í desember árið 2015 og fluttu nemendur inn í janúar 2016. Heimavistin rúmar 240 stúlkur. Byggingin var byggð fyrir styrk frá Utanríkisráðuneytinu.

Chak 96 R/B

Skólinn í Chak 96 er staðsettur í afskekktu þorpi, þar sem fátæktin er mjög mikil. Margar fjölskyldur eru í mikilli skuld. Vegna þessara skulda eru mörg börn seld í skuldaánauð og neydd til að vinna í múrsteinaverksmiðju eða við teppavefnað.
Sharif Ditta ólst upp í þessu þorpi. Þar eru mjög fáir sem fengið hafa menntun og meiri hluti þorpsbúa kunna ekki að lesa. Chak skólinn var byggður á árinu 2006 og voru það hjón á höfuðborgarsvæðinu sem gáfu pening til að byggja þann skóla. Í skólanum eru um 170 börn frá forskóla og upp í 8. bekk. Eftir það halda þau áfram í öðrum skólum. 

Peshawar-Yousafabad
Skólinn í Peshawar var byggður af ABC barnahjálp á árinu 2006. Hann var að mestu byggður fyrir söfnunarfé sem íslensk skólabörn söfnuðu með því að ganga með bauka í hús. Þar stunda nú um 300 börn nám frá forskóla og upp 10. bekk. Eftir útskrift geta þau haldið áfram í hinum ýmsu háskólum.

Jaranwala
Jaranwala skólinn var verkefni sem nemendur og kennarar í Borgarholtsskóla tók að sér að fjármagna. Skólastarfið í Jaranwala hófst þann 1. september 2006 í leiguhúsnæði, en enginn skóli var fyrir í þorpinu. Nýja skólahúsið var tekið í notkun í apríl 2007 og stunda 390 börn nám við skólann frá forskóla upp í 10. bekk. 

Gujaranwala
Skólinn í hóf starfsemi sína í leiguhúsnæði í Janat Town árið 2007. Nemendur í Fjölbrautaskólanum við Ármúla tóku að sér að safna fyrir byggingu skólahúss og í júní 2009 var nýja húsið tekið í notkun. Í dag eru 255 nemendur í skólanum frá leikskóla upp í 7. bekk. Eftir það fá þau stuðning til að fara í aðra skóla. 

Skólaútibúin (Satelite schools)
ABC skólarnir hafa vakið mikla athygli í samfélaginu og stöðugt berast umsóknir frá yfirvöldum í fátækum þorpum um að fá skóla í þorpin. Vegna mikillar þarfar hafa verið stofnuð skólasel á sex stöðum. Þessi skólasel eru rekin í leiguhúsnæði með lágmarksþjónustu. Að loknu námi í þessum skólum fá börnin að halda áfram í heimavist. Þessir skólar eru:

Martinpur

Þessi skóli er staðsettur í mjög fátæku hverfi í borginni Martinpur. Foreldrar barnanna vinna í verksmiðjum eða eru landbúnaðarfólk. Skólinn var stofnaður árið 2007 og er rekinn í leiguhúsnæði. Nemendur eru 330 frá leikskóla upp í 8. bekk. Eftir 8. bekk fá þau stuðning til að halda áfram í öðrum skólum eða fara í heimavistina í Machike. 

Hamrajpura

Hamrajpura er þorp þar sem flestar fjölskyldur eru skuldum vafnar við landeigendur eða verksmiðjueigendur. Skólinn var stofnaður árið 2008 og er rekinn í leiguhúsnæði. Hann þjónar einnig þremur nærliggjandi þorpum. Nemendur eru 146 talsins frá forskóla og upp í 7. bekk. Eftir það halda þau áfram í öðrum skólum. 

  • Rawalpindi þar sem 170 börn stunda nám
  • Faisaslabad með 150 börn