Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589
 


ABC í Úganda


ABC Children's Aid Uganda hét áður Uganda Australia Foundation og var stofnuð af hjónunum Trudy og Francis Odida. Trudy er áströlsk en Francis Úgandamaður. Þau hjónin hafa byggt upp viðamikið hjálparstarf sem sinnir þúsundum barna. Meginþátturinn í því starfi þeirra hefur verið að hjálpa fórnarlömbum alnæmis, munaðarlausum og fátækum börnum að komast í skóla. Uganda Australia Foundation hefur verið samstarfsaðili ABC frá árinu 1993. Árið 2007 var nafninu breytt í ABC Children’s Aid Uganda. Í dag styrkir ABC barnahjálp um 1400 börn í Úganda með hjálp íslenskra stuðningsaðila og hefur byggt skóla í Kitetika og Rackoko í samstarfi við þau hjón auk þess að styrkja börn til náms í Gulu héraði. ABC barnahjálp rekur alls 9 skóla í Úganda.

Þrír skólar eru í Kitetika í Wakio hverfinu norður af Kampala borg; forskóli, grunnskóli og gagnfræðaskóli. Tveir skólar eru í Kasangati sem er í um 6 km fjarlægð frá Kitetika; forskóli og grunnskóli upp í 5. bekk. Eftir það fara börnin í Kitetika skólann.

ABC í Kitetika
Kitetika og þorpin í kring eru u.þ.b. 16 km frá miðborg Kampala, höfuðborg Úganda. Flestir íbúanna eru sjálfsþurftarbændur sem berjast í bökkum við að láta enda ná saman. Flest heimilanna sem börnin okkar búa í eru byggð úr leirsteinum og eru án vatns og rafmagns.

ABC forskólinn í Kitetika og Kasangati
ABC forskólinn í Kitetika er skóli fyrir börn frá þriggja til fimm ára. Forskólinn var settur á laggirnar árið 1992 og hefur börnunum fjölgað mjög ört. Forskólinn í Kasangati var stofnaður 2004. Það var orðið nauðsynlegt að opna skóla í Kasangati þar sem mörg 3ja ára börnin þurftu að ganga langan veg til Kitetika í skólann.

ABC barnaskólinn í Kitetika
Barnaskólinn í Kitetika var stofnaður 1994. Í upphafi byrjaði starfið með 19 börn í einu húsi á 8 ekru landi. Skólinn stækkaði mjög ört vegna mikils fjölda HIV/ eyðni munaðarleysingja og mikillar fátæktar í héraðinu. Börnin voru aðallega börn eyðnissmitaðra ekkna. Í dag eru í skólanum alls 1.100 börn. Barnaskólinn er fyrir börn frá 6 til 12 ára í 1. til 7. bekk. Skólinn er skráður hjá menntamálaráðuneyti Úganda og er talinn mjög góður skóli. Ekkert barn hefur fallið á samræmdum prófum sem tekin eru eftir 7. bekk og hefur skólinn alltaf verið mjög ofarlega á landsvísu. Þetta er gríðarleg viðurkenning fyrir kennarana því nánast öll börnin koma úr lægstu stéttum þjóðfélagsins og búa við mjög slæmar aðstæður. Mörg þessara barna búa hjá öldruðum öfum og ömmum og ef það væri ekki fyrir skólann okkar væru mörg þessara barna ekki á lífi í dag. Þau fá góða læknisþjónustu, skólamáltíð og allt sem þau þarfnast til skólans. Þau fá einnig skólabúning og íþróttabúning.

Unglingaskóli Kitetika
Unglingaskólinn í Kitetika var stofnaður árið 2002 og byggður fyrir börnin sem luku barnaskólaprófi. Nemendur byrja á O stigi (Ordinary level) sem tekur fjögur ár frá 7. og upp í 10. bekk og halda svo áfram á A stigi (Advanced level) sem tekur tvö ár. Í unglingaskólanum eru alls 780 nemendur. Í unglingaskólanum er einnig rekin heimavist sem gerir börnunum kleyft að stunda námið af meira kappi en þeir gátu búandi heima. Í skólanum fá nemendur skólabúning, öll nauðsynleg skólagögn og heita máltíð í hádeginu.

ABC í Rackoko
ABC Children’s Aid rekur fjóra skóla í Rackoko í Norður Úganda; forskóla (3ja til 5 ára börn), Grunnskóla (1.– 7. bekkur), gagnfræðaskóla (8. til 12. bekkur) og iðnskóla. Í Norður Úganda geysaði stríð milli uppreisnarmanna sem kölluðu sig LRA ("Lord’s Resistance Army”) og stjórnvalda í um 22 ár eða frá 1986 til ársins 2008. Um 90% hermannanna í uppreisnarhernum voru börn sem höfðu verið brottnumin og neydd til að berjast. Til þess að sporna við brottnáminu skylduðu stjórnvöld alla íbúa svæðisins til að flytjast í flóttmannabúðir í eigin landi þar sem heil kynslóð barna hefur alist upp við mjög erfiðar aðstæður. Áður en flóttamannabúðirnar voru settar á laggirnar voru íbúarnir, fátækir smábændur, fórnarlömb uppreisnarmanna. Þúsundir voru drepnir, börnin voru numin á brott og neydd til að berjast með uppreisnarmönnum og konunum nauðgað og misþyrmt.

UAF (Uganda Australia Foundation síðar ABC) hóf hjálparstarf á þessu stríðshrjáða svæði í Rackoko í Pader héraðinu í Norður Úganda árið 1993. Starfmenn lögðu líf sitt í hættu hvað eftir annað við uppbyggingu starfisins. Í dag er stíðinu lokið og flóttamannabúðirnar hafa verið leystar upp. Margar fjölskyldur hafa verið skikkaðar af stjórnvöldum til að flytja í minni búðir nær upprunalegu heimilum sínum en mikið af íbúum hefur ekki í nein önnur hús að venda. Aðstaða fólksins í Rackoko er mjög erfið. Matur og vatn er af skornum skammti, hreinlætisaðstaða er frumstæð og híbýlin eru óviðunnandi. Fátækt og sjúkdómar eru útbreytt vandamál meðal barnanna sem hafa þekkt lítið annað en þjáningar um ævina. Í Rackoko hefur ABC byggt upp mikið starf. Byggðir hafa verið fjórir skólar; forskóli fyrir 3ja til 5 ára börn, grunnskóli frá 1. og upp í 7. bekk, gagnfræðaskóli frá 8. og upp í 12. bekk og iðnskóli. Árangur barnanna í skólunum hefur hvatt aðra skóla á svæðinu til að gera betur en árangur þeirra er sá besti á öllu svæðinu sem fyrst og fremst má þakka frábærum kennurum. Einnig rekur ABC Children’s Aid heilsugæslustöð fyrir íbúa Rackoko, útvarspsstöð sem útvarpar uppbyggilegu efni allt norður til Súdan og vestur til Kongó og gistiheimili. Byggðar hafa verið heimavistir fyrir 800 börn.

Til þess að tryggja það að börnin fái nauðsynlega næringu var ákveðið að setja af stað metnaðarfullt verkefni í Rackoko í Norður Úganda. Verkefnið kallast ”Farm for life” og felst í því að rækta grænmeti á 200 hektara landi með það fyrir augum að framleiða nægan mat til að framfleyta ABC skólasamfélaginu. Vonast er til að með tímanum muni vera hægt að hafa umframtekjur af ræktuninni til að styðja við skólastarfið. Verkefninu er einnig ætlað það hlutverk að hjálpa íbúum svæðisins að berjast gegn fátæktinni. Fjölskyldur fá aðgang að landsskikum þar sem þær geta sjálfar ræktað sér til viðurværis. Með fjármagni sem safnaðist við sölu bókarinnar ”Allir geta eldað” sem höfundurinn Aðalbjörg Reynisdóttir gaf ABC allan ágóða af, er verkefnið komið á fullt skrið. Í landinu hefur verið plantað cassava plöntum, baunum og hrísgrjónum og uppskeran er ótrúlega góð. Mikið af fátækum ekkjum og atvinnulausum íbúum Rackoko hafa fengið vinnu við ræktunina því ákveðið var að nota ekki stórvirkar vinnuvélar en gefa frekar fleirum vinnu.

Óspillta kynslóðin

Almennt er talið að spilling sé helsta ástæða fátæktar og hefur hugmyndafræði um "Óspillta kynslóð" verið innleidd í skólum ABC í Úganda. Nefnd hefur verið skipuð sem fer ofan í saumana á öllum málum er viðkoma spillingu. Trudy Odita er hlynnt þessari innleiðingu. "Spilling er landlægt vandamál og þar sem skóli er smækkuð útgáfa af samfélagi er ekki hægt að álíta að skólar séu undenþegnir henni. Því er mikilvægt að stofna svona nefnd sem fer ofan í öll mál er viðkoma spillingu," segir Trudy. 

Landið

Úganda er lítið land í Austur-Afríku, með landamæri að Súdan í norðri, Zaire í vestri, Rwanda og Tansaníu í suðri og að Kenýa í austri. Úganda er ríkt af náttúruauðlindum en lélegir leiðtogar og mikil innanríkisólga hefur leitt til þess að landið býr í dag við mikil efnahagsleg vandamál. Um það bil þrír fjórðu af landsvæði Úganda er á Mið-Afríku hálendinu og er mestur hluti landsins í um það bil 900 metra hæð yfir sjávarmáli.

ugandaLocation

Alls búa tæplega 36 milljónir manna í Úganda, miðað við tölur frá árinu 2012. 

Í landinu er hitabeltisloftslag og hitastigið er stöðugt í kringum 22 gráður. Gresjur þekja stóran hluta landsins, sérstaklega eftir að mestur hluti regnskógarins var höggvinn niður. Viktoríuvatn skiptist á milli Úganda, Tansaníu og Kenýa og myndar að hluta landamæri Úganda í suðri. Vatnið sem áður var ríkt af fiski stríðir nú við alvarleg umhverfisvandamál. Alþjóðleg fyrirtæki með botnvörpur eyðileggja fiskistofninn með ofveiði. Þar að auki eru hlutar vatnsins að breytast í gróður vegna fjölda vatnshýasinta og stöðugt lækkandi vatnsborðs. Veiðiþjófnaður, skógareyðing, ofbeit og jarðvegseyðing eru einnig umhverfisvandamál sem Úganda glímir við. Úganda liggur yfir miðbaug jarðar. Það eru tvö regntímabil yfir árið, mars, maí, október og nóvember. Hitastig er tiltölulega stöðugt vegna hæðar landsins; um 28-35 °c.

Innflytjendur frá Nubia bjuggu í norðurhluta Úganda frá 3. öld f. Krist. Síðar kom meðal annars bantumælandi fólk að vestan og fólk af hamitískum uppruna frá norðaustri. Á norðursvæðunum þróuðust ólíkir ættbálkar á meðan í suðrinu voru konungsdæmi. Frá því um 1840 réðust egypskir og súdanskir þrælahaldarar inn í norðurhéruðin og stuttu eftir það komu fyrstu evrópsku landkönnuðirnir til landsins. Árið 1890 gerðu England og Þýskaland samkomulag sem gerði Úganda að hluta af bresku verndarsvæði. Eftir það var landið undir breskri stjórn fram að sjálfstæði þess 9. október árið 1962. Eftir níu ára hverfult lýðræði tók ofurstinn Idi Amin við völdum í valdaráni árið 1971. Eftir hrottafengið og spillt tímabil sem leiðtogi landsins var honum steypt af stóli árið 1979.

Úgandabúar samanstanda af mörgum ættflokkum. Sumir þeirra, t.d. Nyoro og Ganda ættflokkurinn, eiga sér langa sögu. Aðrir, t.d. Nýbírnir, voru myndaðir af stjórnmálalegum ástæðum á nýlendutímanum. Enska er opinbert tungumál en Swahili er talað víða í landinu. Luganda málið er talað í suðri og Luo í norðri. Yfir 70% þjóðarinnar eru kristnir og um 5% múhameðstrúar.

80 prósent íbúa Úganda eru bændur og landið er óháð öðrum um mat. Kaffi er mikilvægasta útflutningsafurðin og hefur öðru hvoru staðið fyrir 90 prósent af útflutningstekjum landsins og gerði það landið mjög berskjaldað fyrir heimsmarkaðsverði á kaffi. Úganda stóð tiltölulega vel efnahagslega þegar landið varð sjálfstætt árið 1962. Í stjórnartíð sinni rak Idi Amin burt alla þá sem bjuggu yfir erlendri þekkingu og unnu við iðnað og hafði það afar slæm áhrif á efnahag landsins. Undanfarin ár hafa langtíma átök gegn LRA og alnæmisfaraldur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir úganskan efnahag. Landið er í dag algerlega háð erlendri þróunaraðstoð.

 

Myndir frá ABC í Úganda