Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

ABC skólinn

Í september 2008 var skólinn Ecole ABC de Bobo settur á fót í borginni Bobo Dioulasso sem er næst stærsta borg Búrkína Fasó með um 540.000 íbúa (miðað við tölur árið 2012). 

Húsnæðið  notast var við fyrir skólastarfið fyrstu þrjú árin var fengið að láni og endurbætt til starfsins. Í mars 2011 flutti skólinn í nýtt húsnæði en bygging þess var fjármögnuð fyrir gjafafé frá fyrirtækinu Atorka Group. Skólahúsið hefur 6 kennslustofur og nemendur eru um 500 talsins. Einnig er verkmenntadeild í skólanum en þangað fara nemendur sem finna sig illa í bóklegu námi. Einnig er boðið upp á tónlistarkennslu. Í janúar 2016 gátu nemendur byrjað að læra á tölvur en fyrirtækið Tengill ehf. gaf 91 tölvu ásamt skjám, lyklaborðum og músum. Sem stendur er tölvustofan í sama húsnæði og verkmenntadeildin en til stendur að bæta við húsnæði svo aðstaðan verði betri. Forstöðumenn skólans eru hjónin Hinrik Þorsteinsson og Guðný Ragnhildur Jónasdóttir. Þau stjórna skólastarfinu og dvelja í Bobo Dioulasso að meðaltali 6 mánuði á ári. Auk þeirra starfa um 30 manns alls við skólann. 

Skólinn er staðsettur rétt við fátækrahverfið Quenzenville. Þar fá börnin skólagögn, skólabúning, hressingu kl 10:00 og heita máltíð kl 12.00. Auk þess fá þau heilsugæslu en hjúkrunarfræðingur heimsækir skólann tvisvar í viku.

Í febrúar 2011 var hafin bygging á 250 fermetra húsnæði sem á að hýsa matsal og eldhús fyrir skólann. Einnig var borað fyrir vatni á lóðinni við skólann og var sett upp handdæla og var þar með vatnsvandamál skólans úr sögunni, en áður þurfti að kaupa allt vatn fyrir skólann og flytja á asnakerru langa leið.

Í júní 2014 útskrifaðist fyrsti hópurinn úr grunnskóla úr 6. bekk; alls 33 börn. Unglingaskóli var settur á fót og haustið 2014 hófu þeir nemendur nám á fyrsta ári unglingadeildar.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað. Í september 2016 er bygging á framhaldsskóla langt á veg komin og miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á svæðinu. Búið er að koma fyrir enn stærri vatnstanki, leggja vatnslagnir og fjölga sólarsellum verulega. Einnig er búið að bæta aðstöðu starfsfólks og bráðlega verður tekinn í notkun stærri matsalur og eldhúsaðstaða hefur verið stórbætt. 

Nemendur skólans eru fátæk börn á skólaaldri sem búa í fátækrarhverfinu Quenzenville í útjaðri borgarinnar. Aðeins örfá börn úr hverfinu ganga í skóla og því er reynt að dreifa hjálpinni meðal fólksins eins og frekast er unnt með því að gefa einu barni úr hverri fjölskyldu tækifæri til að ganga í skólann. Árið 2010 var meðalfjöldi fæðinga á hverja konu 6.2 börn og því mörg börn í hverri fjölskyldu sem ekki komast í skóla. Fulltrúar foreldrafélagsins benda á fátækustu fjölskyldurnar í hverfinu sem eru í brýnustu þörfinni fyrir hjálp. Hjálpin er ekki aðeins fólgin í menntun barnanna heldur léttir það undir með fjölskyldunum að börnin sem fá að ganga í skóla fá einnig ókeypis mat og læknishjálp í skólanum. Eins og fram hefur komið er Burkina Faso eitt af fátækustu ríkjum heims og er menntun barna ekki á forgangslista fátækra foreldra sem þurfa fyrst og fremst að hugsa um grunnþarfir fjölskyldunnar svo sem mat og húsnæði.

Í skólanum er starfrækt öflugt foreldrafélag og eru foreldrar barnanna mjög duglegir að aðstoða við ýmis verk t.d. sjá þeir alfarið um ræktun á matjurtum fyrir skólastarfið á lóð sem skólinn hefur afnot af í um 10 km frá skólanum. Mikil áhersla er lögð á það við foreldrana að skólinn sé þeirra verkefni. Það þykir einstakt að fátækt fólk á þessu svæði gefi vinnu sína eins foreldrar skólabarnanna gera enda þykir mikið happ að barn úr þeirra fjölskyldu komist í skóla.

 

Landið

burkinaFasoLocationBúrkína Fasó er landlukt ríki í Vestur-Afríku með landamæri að Malí í norðri, Níger í austri, Benín í suðaustri, Tógó og Gana í suðri og Fílabeinsströndinni í vestri. Landið hét Efri-Volta til ársins 1984 þegar því var breytt í Búrkína Fasó, sem merkir „land hinna uppréttu" á tungumálunum moré og dioula sem eru tvö stærstu mál innfæddra. Landið er rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland og íbúar eru um 14 milljónir. Höfuðborgin heitir Ouagadougu og opinbert tungumál er franska. Landið fékk sjálfstæði frá Frökkum árið 1960. Núverandi forseti, Blaise Compaoré, komst til valda eftir hallarbyltingu árið 1987.

Verg landsframleiðsla á mann í Búrkína Fasó er með því lægsta sem gerist og landið er 28. fátækasta ríki heims. 32% landsframleiðslunnar er í landbúnaði þar sem 80% íbúanna vinna. Landbúnaður er aðallega kvikfjárrækt, en í suður- og suðvesturhlutanum er stunduð jarðrækt, einkum á dúrru, perluhirsi, maís, jarðhnetum, hrísgrjónum og bómull.

Samkvæmt landslögum í Burkina Faso er skólaskylda barna frá 6 til 16 ára. Skólavist á að vera ókeypis samkvæmt lögum en stjórnvöld hafa ekki fjármagn til að sinna þörfinni fyrir skóla fyrir öll börn í landinu. Fjölskyldur barnanna sem fá skólavist þurfa að borga fyrir skólagögn, s kólabúning ofl. eða um 50.000 CFA (12.500 ÍSK) á ári sem er miklu meira en flestar fjölskyldur hafa efni á. Skólar á vegum hins opinbera eru yfirfullir, oft með 100-200 börn í bekk. Þegar skólar eru fullsetnir er börnunum vísað frá og þurfa þau að reyna aftur næsta ár. Drengir hafa forgang um skólavist og er ólæsi meðal stúlkna mun hærra en meðal drengja. Árið 2002 gengu aðeins um 36% barna á grunnskólaaldri í skóla. Árið 2001 voru ekki nema um 66% barnanna líkleg til að ljúka námi úr 5. bekk.

Ólæsi í landinu, samkvæmt skýrslu Sameinuðu Þjóðanna, er það hæsta í heiminum en aðeins 36.3 % landsmanna voru læsir miðað við nýlegustu tölur. Burkina Faso er á lista DAC yfir minnst þróuð lönd í heiminum.

Hér eru myndir frá Búrkína Fasó

{flike}