Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

Hagsmunir barnanna ganga fyrir öllu öðru. Starf ABC í Kenía er og hefur verið ómetanlegt og tryggja verður óslitið framhald þess. Nauðsynlegt er að fá hlutlausa úttekt á atburðum innan ABC í Kenía og hvort stuðningur frá Íslandi skili sér á rétta staði, fjármunir frá bæði stuðningsaðilum og ríkinu. Þannig má í fáum orðum lýsa því sem ítrekað kom fram í gær í máli gesta á kynningarfundi ABC á Íslandi um starfsemi samtakanna í Kenía.

alt

Samkomuna á Grandhóteli sóttu yfir 90 manns, sem hlýtur að teljast góð fundarsókn í blíðviðri að sumarlagi!

Kynningarfundurinn var sérstakur að því leyti að í seinni hluta hans var tengt beint við myndver í Kenía. Þar voru þá staddir kennarar og nemendur í  skóla, sem ABC á Íslandi rekur í Nairobi, ásamt Samúel Ingimarssyni, stjórnarmanni ABC á Íslandi og Ástríði Júlíusdóttir, sem hafa verið fulltrúar ABC á Íslandi í Kenía frá því í maí sl.

Þarna var líka Melody Taylor, forystumaður bandarískra hjálparsamtaka, Go Near að nafni. Taylor rómaði starfsemi ABC á Íslandi í Kenía. Fundarstjórinn og varastjórnarmaðurinn Páll Elvar Pálsson upplýsti að ABC og Go Near hefðu starfað saman í Kenía og hygðust auka samstarfið.

Fulltrúar nemenda og kennara tjáðu sig milli heimsálfanna og vildu fullvissa gesti í salnum í Reykjavík um að starfsemi ABC í Kenía gengi eðlilega fyrir sig, skólahald væri í fullum gangi, fjármunir rötuðu rétta leið á áfangastaði sína og Samúel og Ástríður héldu vel utan um verkefni sín og ABC á Íslandi.

Guðrún Margrét Pálsdóttir, stofnandi og stjórnarformaður ABC á Íslandi, bauð gesti gesti velkomna í upphafi fundar og þakkaði þeim stuðning og traust undanfarin ár og áratugi. Fríður Birna Stefánsdóttir framkvæmdastjóri ABC og Einar Gautur Steingrímsson lögmaður samtakanna röktu síðan atburði og stöðu mála í stórum dráttum.

ABC á Íslandi rekur nú milliliðalaust tvo skóla í Kenía, annan í Naibori en hinn í suðausturhluta landsins. Starfsemin gengur eins og til var stofnað. Krakkarnir voru  nýlega í prófum og eru komin til starfa á ný eftir nokkurra daga skólafrí.

Félagslífið er greinilega blómlegt líka. Nemendur tóku á dögunum þátt í tónlistarkeppni nemenda og náðu nokkrir fyrstu sætum í sínum riðlum. Það tryggir þeim þátttökurétt til keppni sem nær til skóla á mun stærra svæði.

Lögmaður ABC rakti atburði frá í vor þegar fyrrum framkvæmdastjóri sjálfseignarstofnunarinnar ABC Kenía og fleiri tóku völdin í félaginu í orðsins fyllstu merkingu. ABC Kenía heyrði undir ABC á Íslandi samkvæmt stofnsamþykktum frá 2006 og breyttum samþykktum frá 2008.

Framkvæmdastjóranum var sagt upp störfum þegar þessi trúnaðarbrestur lá fyrir í orði og skjalfestur í verki. Framkvæmdastjórinn kallaði saman stjórnarfund í samtökunum í vor en boðaði ekki þrjá stjórnarmenn til fundar. Þeir sem mættu til fundar settu af þá stjórnarmenn sem fjarverandi voru, tóku þrjá nýja menn inn í stjórnina og breyttu samþykktum félagsins.

Einar Gautur lögmaður sagði að allur þessi gjörningur væri ólöglegur en samt hefði tekist að fá breytingar í stjórn og á samþykktum félagsins skráðar hjá stjórnvöldum Kenía. Unnið væri að því að fá þá skráningu ómerkta.

Í þeirri stöðu, sem upp kom þarna, ákvað stjórn ABC á Íslandi að eiga engin samskipti við þetta fyrrum dótturfélag sitt en stjórna hjálparstarfi sínu í Kenía beint frá Íslandi. Það fyrirkomulag gengur vel og snurðulaust.

Fram kom í svari framkvæmdastjóra ABC á Íslandi við fyrirspurnum úr sal að fyrrverandi framkvæmdastjóri ABC Kenía hefði vissulega skilað góðu starfi í Kenía lengi vel en  sitt mat væri að „síðastliðin hálft annað til tvö ár hefðu hlutirnir ekki verið þarna í lagi.“

Einn fundarmaður spurði hvort rætur deilna í Kenía mætti rekja til vanefnda á samningum við fyrrum framkvæmdastjóra. Lögmaður ABC neitaði því og sagði að samtökin hefðu staðið við allt sitt gagnvart þessum fyrrum starfsmanni sínum, sem er á launaskrá ABC á Íslandi þar til núna um mánaðarmótin júní-júlí.

Annar fundarmaður taldi bornar „ósanngjarnar ásakanir“ á hendur framkvæmdastjóranum fyrrverandi og sagði lítið sannfærandi það sem skólafólkið í Kenía og fleiri þar hefðu haft fram að færa í gegnum fjarfundarbúnaðinn frá Nairobi. Hann kallaði þetta „leikstýrt atriði“.

 Þá kvaddi sér hljóðs undir lokin íslenskur hjúkrunarnemi og grunnskólakennari sem kom hingað heim fyrir þremur vikum úr sjálfboðavinnu í Kenía. Sá fundarmaður taldi gleðina og áhugann, sem birtist frá Kenía á tjaldinu í fundarsal Grandhótels, vera raunverulegan og ekta. Mátt hafi samt merkja ótta og kvíða hjá fólkinu ytra á dögunum en „allir voru sannfærðir um að breytingarnar þar væru til góðs.“ Hjúkrunarneminn sagði síðan efnislega:

„Við vorum svo heppin að fá að heimsækja ABC og erum sammála um að sú heimsókn hafi standi upp úr því sem við kynntumst þarna. Þetta átti að vera ein heimsókn en varð að þremur því þau gjörsamlega gleyptu hjörtu okkar, þessi börn. Okkar upplifun í skólanum var sú að börnin væru gríðarlega glöð og sjálf myndi ég óska þess að mínir nemendur væru jafn metnaðarfullir og ánægðir með að fá að læra og börnin í þessum skóla.

Ég styð innilega að óháður aðili meti það sem gerðist þarna. Við vildum bara að þið fengjuð að vita að starf ABC í Kenía er gjörsamlega magnað og ótrúlegt hve mikið styrkirnir héðan hafa að segja fyrir börnin og kynslóðirnar sem fylgja á eftir. Ég óttast mest að deilurnar kunni að hafa áhrif á framtíð barnanna, þær mega ekki á nokkurn hátt hafa áhrif á barnastarfið.“

 Fundarstjóri tók undir þessi orð í lokin og kvað þau einmitt merg málsins. Í þeim anda myndi líka ABC á Íslandi starfa áfram í Kenía.

 

 

Stuðningsaðilum ABC barnahjálpar er boðið til kynningarfundar þar sem fjallað verður um stöðu mála í Kenýa. Fundurinn verður haldinn á Grand hótel næstkomandi mánudag, 29. júní kl. 17.00 í Gullteigssal. 

Í ljósi umræðunnar sem skapast hefur telur forysta ABC á Íslandi bæði eðlilegt og rétt að kynna enn betur starfsemi samtakanna í Kenýa og upplýsa um breytingar í stjórnskipan verkefna þar. Stjórnarmenn, framkvæmdarstjóri og lögmaður ABC hafa framsögu og sitja fyrir svörum. Fundinum stýrir Páll Elvar Pálsson sem er varastjórnarmaður ABC á Íslandi.

ABC á Íslandi fer með forræði barnahjálpar í Kenýa

Starfsemi barnahjálpar í Kenýa er fram haldið af fullum krafti á vegum ABC á Íslandi. Þar koma við sögu um 1.000 börn og framundan í ár er að byggja nýja hæð ofan á hús skólans sem ABC rekur í Nairobi. Til verkefnisins rennur söfnunarfé í árlegu átaki samtakanna, Börn hjálpa börnum. 

ABC á Íslandi fer nú milliliðalaust með forræði starfs síns í Kenýa. Stjórnarmaður samtakanna, Samúel Ingimarsson, og Ástríður Júlíusdóttir, fóru til Kenýa og hafa verið fulltrúar ABC á Íslandi þar á vettvangi frá 8. maí 2015. Þau störfuðu áður á vegum ABC í Nairobi 2012 til 2013 og eru þar öllum hnútug kunnug. 

Kjarni máls er að starfsemi ABC á Íslandi gengur eins og til var stofnað í Kenýa og annars staðar. Stuðningsaðilar samtakanna geta treyst því að framlög þeirra skila sér til barna sem þau eru ætluð, hér eftir sem hingað til. 

Trúnaðarbrestur kom upp í samskiptum ABC á Íslandi og Þórunnar Helgadóttur, framkvæmdarstjóra ABC Kenýa. ABC á Íslandi réði hana til starfa á sínum tíma og sendi til Kenýa undir lok árs 2006. Þórunni var sagt upp störfum í vor og hún fer af launaskrá ABC á Íslandi núna 1. júlí. Sarfsemi ABC Kenýa, sem hún er skráð fyrir, er óviðkomandi ABC á Íslandi. 

Þórunn gerði margt mjög vel í þágu ABC í Kenýa og á þakkir skyldar fyrir hlut sinn. Hún kaus hins vegar að bregðast trausti ABC á Íslandi gróflega með því að reyna að sölsa undir sig bæði félagið, ABC Kenýa, og eignir samtakanna. Það var mikið áfall fyrir starfsemi ABC en við var brugðist þegar í stað, enda ganga hagsmunir barnanna, skjólstæðinga samtakanna, fyrir öllu öðru. 

Í Fréttablaðinu hafa birst dramatískar frásagnir úr smiðju fyrrum framkvæmdarstjóra i Kenýa um að "allt sé í hers höndum í ABC" og jafnvel fullyrðingar um að ABC á Íslandi beri fé á fólk í Kenýa til að tryggja ítök sín í  hjálparstarfi þar. Ásakanir um glæpsamlega starfsemi og lögbrot í Kenýa dæma sig sjálfar. Fullyrðingar um að "allt sé í hers höndum" í samtökunum eiga sér enga stoð í veruleikanum, eins og þeir munu staðreyna sem þiggja boð um að koma á kynningarfund á mánudaginn kemur. Það er mjög miður að fráfarandi starfsmaður ABC á Íslandi skuli reiða svo hátt til höggs gegn samtökunum og starfsemi þeirra og ganga svo rækilega á svig við sannleikann á opinberum vettvangi. 

Óskað hefur verið eftir því að Ríkisendurskoðun kanni hvernig ABC á Íslandi fer með opinbera fjármuni vegna hjálparstarfs í Kenýa. Taki Ríkisendurskoðun erindið til meðferðar greiða samtökin að sjálfsögðu fyrir því að sú úttekt gangi fljótt og vel fyrir sig. 

Utanríkisráðuneytið hafði lagt ABC á Íslandi til 15 milljónir króna til stuðnings framkvæmdum við nýja hæð skólahússins í Nairobi. Fjármunir voru geymdir á reikningi ABC en í ljósi stöðu mála höfðu samtökin frumkvæði að því að millifæra þá á ný til ráðuneytisins á biðreikning á þess vegum. Stjórnvöld hafa þannig fullt forræði yfir peningunum og ráðstöfun þeirra. 

Starfsmenn ABC á Íslandi hafa undanfarna daga og vikur fengið munnlega og skriflegar stuðningsyfirlýsingar frá börnum, foreldrum og kennurum sem tengjast starfsemi samtakanna í Kenýa. Sú hvatning er ABC mikilvægur stuðningur og vegvísir í starfinu nú og til framtíðar.

Þess ber að geta að ráðamenn Grand hótels leggja ABC til fundarsalinn endurgjaldslaust og við þökkum þeim fyrir stuðninginn.  

Stuðningsaðilar hafa þegar fengið rafrænan póst um kynningarfundinn og eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu sína á netfangið

 

 

 

 

Við vildum deila nokkrum myndum af börnunum okkar í Kenýa. Þessar voru teknar 16. júni og þær sýna daglegt líf þeirra á skólasvæðinu.

                                                    

alt                 alt

alt                 alt

alt                alt

alt              alt

           
                                                            

Sannarlega fríður hópur hér á ferð

Grunnskólabörn ABC skólans í Kariobangi í Kenýa taka þátt í tónlistarhátíð á vegum stjórnvalda (Kenya Music Festivals). Forkeppnirnar eru þrjár talsins og er sú fyrsta afstaðin og þar áttust við skólarnir í hverfunum. Keppt var í nokkrum flokkum og krakkarnir stóðu sig frábærlega. Flokkarnir voru:

1. Kórsöngur; 1. sæti                                                                                                          

2. Ljóð á ensku; 1. sæti

3. Ljóð á eigin tungumáli; 1. sæti                                                                                        

4. Ljóð á Kiswahili; 3. og 4. sæti

5. Ljóð hjá yngri grunnskólanemendum; 4. sæti

6. Þjóðsöngvar; 5. sæti                                                                                                                      

Með þessum árangri eru börnin sem náðu fyrsta sæti komin áfram í næstu forkeppni sem haldin er dagana 16. til 18. júní og er þá útsláttur milli héraða. Börnin stíga á svið 17. og 18. júní.  

Í fyrra komust nemendur ABC skólans alla leið í úrslit á landsvísu í blönduðum kórsöng. Þau náðu þriðja sætinu sem er hreint stórkostlegur árangur.

Þórunn Helgadóttir, fyrrverandi forstöðumaður ABC-barnahjálpar í Kenýa, hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna málefna samtakanna þar í landi. Hún hallar þar á köflum réttu máli svo mildilega sé til orða tekið. Eftirfarandi skal því tekið fram að þessu gefna tilefni.

ABC-barnahjálp á Íslandi réði Þórunni til starfa í marsbyrjun 2006 og sendi hana til starfa í Kenýa undir lok sama árs. Á árinu 2008 var samþykkt skipulagsskrá þar sem ABC Kenýa er skilgreint sem hluti af alþjóðlegri starfsemi samtakanna, ABC International. Það fylgdi sögu að stjórnarformaður ABC International skipaði framkvæmdastjóra ABC Kenýa, sæti jafnframt í stjórn ABC Kenýa eða tilnefndi stjórnarmann í sinn stað.

Núna í apríl 2015 brá svo við að Þórunn sendi stjórnarformanni ABC International bréf og lýsti því einhliða yfir að ABC Kenýa væri ekki lengur hluti af ABC International. Það skal undirstrikað að Þórunn var á þessum tíma starfsmaður ABC International, á launum hjá ABC á Íslandi og milliliður fjárhagslegrar aðstoðar ABC International við starfsemi ABC Kenýa.

Bréfinu umrædda var fylgt eftir með stjórnarfundi sem aðeins þrír „heimamenn“ í ABC Kenýa voru boðaðir til. Hinir þrír stjórnarmennirnir voru ekki boðaðir til fundar. Mjög lá á að hespa af þessum „stjórnarfundi“ sem sést best á því að fyrir lá að stjórnarformaður ABC International, sem jafnframt situr í stjórn ABC Kenýa, hafði boðað komu sína til Kenýa einungis fjórum sólarhringum síðar!

Stjórnarmennirnir þrír samþykktu að leysa hina þrjá stjórnarmennina frá störfum og skipa nýja í þeirra stað á þessum fundi sem ólöglega var staðið að.

Hér var upp kominn trúnaðarbrestur í tærustu mynd sinni og er þá vægt til orða tekið. Þórunni var sagt upp störfum, enda augljóst að hún og félagar hennar í Kenýa höfðu brugðist trausti ABC og hreinlega reynt að sölsa undir sig ABC Kenýa og eignir samtakanna þar með.

Þetta var að sjálfsögðu mikið áfall fyrir ABC og starfsemi samtakanna en skjótlega var brugðist til að takmarka sem mest skaðann.

Þórunn Helgadóttir gerði margt vel og það mjög vel í þágu ABC í Kenýa og á þakkir skyldar fyrir þann hlut sinn. Hún braut hins vegar gróflega gegn samþykktum ABC og valdi þannig sjálf aðra leið í lífinu en að starfa með samtökunum áfram.

Hvað sem öðru líður er mikilvægast af öllu að standa vörð um starfsemi ABC í Kenýa og upplýsa alla þá sem styrkja starfsemi samtakanna þar og annars staðar að innviðir ABC Kenýa standa og sjálf barnahjálpin þar er virk sem fyrr. Það skiptir að sjálfsögðu öllu máli.


Samúel Ingimarsson, stjórnarmaður ABC-barnahjálpar, og Ástríður Júlíusdóttir tóku tímabundið við framkvæmdastjórn hjálparstarfs samtakanna í Kenýa frá og með 8. maí 2015. Þau störfuðu um eins árs skeið á vegum ABC í Nairobi, frá 2012-2013, og eru afar vel kunnug starfseminni þar.


Framundan  á árinu 2015 er að byggja nýja hæð skólahúss sem ABC rekur í Nairobi. Til þess verkefnis renna fjármunir sem söfnuðust í árlega átakinu Börn hjálpa börnum.

Hafa samband

ABC barnahjálp
Víkurhvarfi 2
203 Kópavogi

Opið 9 - 16 virka daga


Sími: 414 0990
Tölvupóstur:


Contact ABC Children's Aid International Hafa samband

Styðja barn