Styrkja starf ABC barnahjálpar
Kaupa gjafabréf með eigin kveðju
Minningargjöf með ABC korti
Finna og styrkja ABC barn

Menntun er mikilvægasti hlekkurinn í að rjúfa vítahring fátæktar.
Tilgangur ABC barnahjálpar er að veita börnum varanlega hjálp í formi menntunar.
ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf, stofnað árið 1988.

 Reikningsnúmer neyðarsjóðs er 515-14-303000 kt. 6906881589

Í dag, 12. júní er alþjóðlegur dagur gegn barnaþrælkun (www.ilo.org) Það er því vel við hæfi að beina sjónum að þeim milljónum barna sem vinna langa vinnudaga við skelfilegar aðstæður. ABC barnahjálp starfar m.a. í Bangladess og Pakistan er þar er barnaþrælkun því miður afar algeng. alt

Í fátækustu löndum heims er eitt af hverjum fjórum börnum í barnaþrælkun. Barnaþrælkun samkvæmt þeim skýrslum sem hér er stuðst við frá UNICEF er þegar börn eru annað hvort of ung til að gegna þeim störfum sem þau eru sett í, eru hættuleg, stofna lífi þeirra, heilsu og limum í hættu, koma í veg fyrir að þau geti gengið í skóla og sinnt félagslegum þörfum sínum. (www.unicef.org). Af þeim 152 milljónum barna heimsin sem eru í þrælkun er rúmlega helmingur þeirra í hættulegri vinnu.

Í Bangladess er talið að þriðjungur barna á grunnskólaaldri sé ekki í skóla, að því er fram kemur í skýrslum UNICEF um stöðu barna í Bangladess. Þau börn eru mörg hver upptekin alla daga við vinnu. Allt frá fimm ára aldri stunda þau erfiðisvinnu sem oftar en ekki er hættuleg og heilsuspillandi.

Það sama er uppi á teningnum víða í Pakistan og verður hér sagt í stuttu máli frá nýtilkomnu samstarfi ABC og Rasta foundation of Pakistan.

Múrsteinabörnin í Pakistan

ABC hóf samstarf við frjálsu félagasamtökin Rasta Foundation of Pakistan árið 2018. Rasta hefur starfað í Pakistan frá árinu 2009 og markmið þeirra er að hjálpa múrsteinabörnunum, börnum sem áður voru í þrælavinnu í verksmiðjum þar sem brenndir eru múrsteinar, að öðlast menntun og frelsi en samtökin reka skóla.

Skólinn er í héraði sem heitir Sheikhupura, þar sem flestar fjölskyldur vinna fyrir verksmiðjueigendur sem þau skulda peninga. Þar fá börn kennslu í dagskóla frá leikskóla upp í 10. bekk. Læra þau úrdú, ensku, stærðfræði, ljóð og myndlist, félagsfræði, trúarbragðafræði, vísindi, landafræði, sögu og fá tölvukennslu. Í skólanum geta þau klárað ígildi gagnfræðaskólanáms og er námið bæði bóklegt og verklegt. Þessi börn eiga það sameiginlegt að hafa ekki fengið neina kennslu á nokkurn hátt áður en þau koma í Rasta skólann.

Rasta Foundation Brick Kiln Slaves School,var stofnaður árið 2009 en upphafsmaður starfsins er kristinn prestur að nafni Shamoun Chand. Chand ólst upp í nágrenni múrsteinaverksmiðjanna og sá þörfina hjá þessum afskipta hópi barna sem voru án réttar og menntunar. Chand byrjaði í litlu húsnæði með þrjá kennara. Árið 2013 komu sænsk samtök og byggðu nýja skólabyggingu fyrir samtökin og var byggingin vígð 28. nóvember 2013. Skólinn hefur vaxið jafnt og þétt og í dag eru þar yfir 200 nemendur og 18 kennarar og starfsmenn.

Mikið er lagt upp úr því að nemendur læri um og verði meðvitaðir um rétt sinn og skyldur í samfélaginu. Markvisst er stuðlað að fræðslu um grunnþarfir barna, barnavernd, barnaþrælkun, mansal, kynjajafnrétti og fleira. Félagsleg vandamál eru mörg í landinu og mikið níðst á þegnunum og réttindi þeirra virt að vettugi.

Flest börn byrja í KG eða forskóla 6 ára. Grunnskólinn er eins og á Íslandi frá 1. bekk upp í 10. bekk en þá taka nemendur samræmd próf og geta farið í háskóla ef þeir ná prófunum. alt alt

Vítahringurinn

Hinir bágstöddu eða þeir lægst settu í þjóðfélagsstiganum í Pakistan eiga ekki marga valmöguleika þegar kemur að því að sjá fyrir sér og sínum. Í raun má alla jafna tala um tvo valkosti; að betla á götunum eða þiggja lán frá þeim sem fara fyrir einhverjum stórum iðnaði í landinu, þar með töldum múrsteinaverksmiðjum. Þiggi þeir lán bíður þeirra langur og erfiður vinnudagur við að búa til múrsteina úr leir. Yfirleitt skín sólin skært á daginn og fyrir vikið verður leirinn mjög heitur og vinnumenn þurfa að bera múrsteina á milli með berum höndum. Í Sheikhupura héraðinu eru hundruð barna í þrælkunarvinnu og meðferðin á þeim svo slæm að þeim er ekki heimilt að sækja skóla. Vinnudagurinn er alla jafna 16 klukkustundir á dag sex daga vikunnar. Aðilar frá Rasta Foundation semja við verksmiðjueigendur og borga skuldir verkamannanna og leysa þar með börn þeirra úr ánauð (þrælkunarvinnu). Samtökin bjóða svo upp á dagskóla fyrir börnin þar sem þau fá menntun, mat, skólabúninga og heilsugæslu. Skólinn er í sama þorpi og verksmiðjurnar og þar sem fjölskyldur barnanna búa. Sumar fjölskyldur búa í litlum múrsteina-kofum og aðrar leigja eitt herbergi af verksmiðjueigendum fyrir alla fjölskylduna. alt alt alt

Óspillta kynslóðin og framtíðin

Það er samróma álit flestra að spilling sé helsta ástæða fátæktar í heiminum. Hugmyndafræðin um „óspillta kynslóð“ hefur verið innleidd víðs vegar í skólum ABC í Asíu og Afríku. Markvisst er farið í að fræða krakkana um neikvæðan áhrifamátt og umfang spillingar. Spilling snýst um bjagaðan hugsunarhátt frekar en sókn í peninga og munu komandi kynslóðir alast upp við fræðslu um þessa helstu ástæðu fátæktar og örbirgðar.

ILO, International Labour Organization, stendur fyrir alþjóðlegum degi gegn barnaþrælkun. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2002 og í ár er dagurinn því haldinn í sextánda skipti. Mörgu hefur verið komið til leiðar síðan 2002 en eftir sem áður eru 152 milljónir barna í þrælkun. Markmiðið er að binda enda á barnaþrælkun fyrir árið 2025 og til að unnt sé að ná því markmiði er nauðsynlegt að allir leggist á eitt og vinni saman að því markmiði.

alt

Það að alast upp í fátækt hefur ekki aðeins búið til fjárhags- og námserfiðleika fyrir mig, heldur hefur það líka hjálpað mér að átta mig á raunverulegu gildi menntunar.

Ég heiti Mary Ann Saberon Blanque og ég bý með foreldrum mínum og 6 systkinum. Okkur systkinunum gekk illa í skóla vegna fátæklegra tekna foreldra minna en þau störfuðu sem trésmiðir á tímabundnum samningi.

Þegar ég var 7 ára þá kynntist móðir mín konu sem heitir “Ate Lydia”, en hún var á einhvern hátt tengd Children’s Mission. Móðir mín bað hana um hjálp við að komast inn í námsstyrktaráætlun þeirra þar sem einkunnir mínar voru sérstaklega góðar. Við fengum svar nokkrum vikum seinna og þökk sé Guði þá uppfyllti ég skilyrði inngöngu í styrktaráætlunina og það lánsamlega tækifæri var upphafið að nýju og betrumbættu lífi. Ég veit núna hvað það þýðir að vera ófær um að sinna fjárhagslegum skyldum sínum. Meðan á framhaldsskólagöngu minni stóð þá vann ég langt fram á kvöld til að sjá mér og systkinum mínum fyrir nauðsynjum fyrir heimilishald þar sem hvorugt foreldri mitt var í fastri vinnu.

Ég var aðeins 16 ára þegar ég byrjaði að vinna á skyndibitastað samhliða námi en samt náði ég að viðhalda góðum námsárangri. Foreldrar mínir voru svo ánægðir með þann fjárhagslega og andlega stuðning sem CM veitti mér. Mér var rosalega annt um stuðningsaðila minn. Hann nýtti hvert tækifæri til að senda mér gjafir, þá sérstaklega á jólunum og þegar ég átti afmæli. Ég fann fyrir mikilvægi mínu og hversu elskuð ég var. Jafnvel fjölskylda mín fann fyrir þeirri umhyggju sem kom frá styrktaráætluninni vegna óþreytandi stuðnings. Ég hef fengið stuðning í 14 ár núna og á öllum þeim árum þá fann ég og mín fjölskylda fyrir þessum sterku tengslum við stuðningsaðilann í gegnum bréfaskrif. Ég skiptist á bréfum við velunnara mína, fullvissaði þá um að ég myndi skrifa eins mikið og ég gæti, sagði þeim frá öllu góðu fréttunum um mig og auðvitað mitt nám. Ég trúði því að það væri eina leiðin fyrir mig til að sýna þakklæti mitt og gefa eitthvað til baka.

Með áframhaldandi hjálp stuðningsaðila í gegnum styrktaráætlunina þá tókst mér að klára háskólagráðu í viðskipta- og kennslufræðum frá einum stærsta ríkisrekna háskóla Filippseyja. Ég er stolt að segja frá því að ég er fyrst í minni fjölskyldu til að útskrifast úr háskóla og þar að auki fékk ég tvö sérstök verðlaun, “Besti Rannsóknaraðili í Menntamálum 2012” og “Frú Kennari 2011”.

Mér tókst að finna mér starf einungis mánuði eftir útskrift. Ég var í tvö ár í vinnu þar sem ég tók að mér vinnslu upplýsinga tengdum viðskiptum frá utanaðkomandi fyrirtækjum. Það var ekki auðvelt að vinna á kvöldin en með því þá gat ég nýtt daginn í að undirbúa mig fyrir próf í kennsluréttindum. Mesta erfiðið var hversu lítinn svefn ég fékk, en ég var staðráðin í að halda áfram, sama hversu þreytt ég væri. Eftir marga mánuði af svefnleysi og streitu þá hófst það á endanum, ég náði kennsluréttindaprófinu. Í dag er ég með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi og er virkur sem kennari. Ég hef verið að kenna tölvunám í næstum því 4 ár. Ég deili mínum sögum með ungu fólki til að þau fyllist áhuga og hvatningu því að lífið er erfiðleikum stráð en erfiðleikar þessir eru blessun frá Guði þar sem hann veit hversu sterk og hversu megnug við erum öll í að horfast í augu við þá. Mér finnst ég vera lánsöm að hafa verið partur af þessari styrktaráætlun. Án hennar og án áframhaldandi stuðnings þessum sem mér hefur verið veittur þá á ég erfitt með að ímynda mér hvernig líf mitt hefði orðið. Það er einstakur heiður að hafa verið stuðningsþegi Children’s Mission í Filippseyjum.

Ég vil af öllu mínu hjarta sýna fram á það þakklæti og þá virðingu sem ég hef fyrir því rausnarlega og óeigingjarna starfi sem þið hafið sýnt mér og filipseyskum börnum eins og mér. Ég bið fyrir því að ég geti einn daginn hitt fjölskyldu stuðningsaðila míns og allt það fólk sem er á bak við styrktaráætlunina svo ég geti almennilega þakkað þeim fyrir þeirra fjárfestingu í mínu lífi. Eins og staðan er núna þá stefni ég á framhaldsnám á Nýja-Sjálandi og ég vona innilega að mér takist það. Þetta er annað frábært tækifæri fyrir mig.

Að fara í framhaldsnám er eitthvað sem ég trúi að muni víkka út sjóndeildarhringinn og gefa mér frekari þjálfun og hæfni í starfi og leik. Þetta er minn stærsti draumur, og eitthvað sem ég veit að mun gera mig að sterkari einstakling. Enn og aftur þá þakka ég fyrir þann verðmæta stuðning sem þið hafið sýnt mér og samlöndum mínum og ég vona að þið haldið áfram að veita stuðning og að vera okkur innblástur. Frá mínum dýpstu hjartarótum og frá allri fjölskyldu minni, takk fyrir og Guð varðveiti og gefi ykkur blessun sína. alt alt alt alt alt alt alt alt

Eftir að við hófum samstarf við Rasta Foundation of Pakistan og hófum að styðja börn til náms í skólanum Rasta Foundation Brick Kiln Slaves School, síðastliðinn vetur getum við stolt sagt frá því að töluvert hafi breyst til hins betra í aðbúnaði er snýr að börnunum.

Meðal annars fá börnin nú læknisþjónustu einu sinni í mánuði þar sem hvert og eitt barn fær skoðun og meðhöndlun ef þarf. Hér má sjá myndir frá læknisheimsókn sem átti sér stað í liðinni viku. alt alt alt

Miðvikudaginn 9. maí sl. var haldinn starfsmannafundur á Hótel Kríunesi. Sérstakur gestur var Bo Wallenberg, framkvæmdarstjóri Barnmissionen og stjórnarmaður ABC, og viðstaddir voru starfsmenn skrifstofunnar og nytjamarkaðanna.

Málefni fundarins voru m.a. þau að fara yfir mál sem eru í deiglunni hjá ABC. Sigurlín Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri, greindi frá heimsókn sinni til Bangladess en ABC hóf nýverið að styðja við skólann sem rekinn er þar í landi. Þráinn Skúlason, stjórnarmaður, greindi frá sinni heimsókn en hann hélt til Pakistan í apríl síðastliðnum til að taka út starfsemina hjá nýjasta samstarfsaðila ABC. Írís Ósk Friðriksdóttir, verkefnastjóri, kynnti nýja heimasíðu sem bráðlega fer í loftið. Einnig tók framkvæmdarstjóri ABC, Laufey Birgisdóttir, til máls og Bo miðlaði af sinni áralöngu reynslu sem starfsmaður og síðar framkvæmdastjóri hjá sænsku hjálparsamtökunum.

Það er óhætt að segja að starfsmenn ABC voru fullir uppörvunar að loknum degi og fullir tilhlökkunar í að takast á við komandi verkefni.

Hér má sjá mynd af starfsmönnum skrifstofunnar ásamt Bo Wallenberg. alt

Í ABC skólanum í Kasangati tekur brosmildur kvenkyns vörður að nafni Agnes á móti þeim sem koma inn fyrir dyrnar, hvort sem um er að ræða nemendur eða gesti. Hún tekur starfi sínu alvarlega og þegar ókunnugu andliti bregður fyrir er Agnes fljót að spyrja viðkomandi hvert erindið sé. Hér má sjá Laufey framkvæmdastjóra ABC barnahjálp og Agnesi.

Líf einstæðra mæðra í Úganda er erfitt. Margar þeirra koma úr sárri fátækt og aðstæður koma í veg fyrir að þær geti unnið sig úr henni. Mjög oft kemur upp sú staða að eiginmenn ákveði einn daginn að láta sig hverfa og hefja nýtt líf á öðrum stað. Félagslegt umhverfi í landinu er ekki eins og flestir þekkja því engin lagaleg kvöð er á mönnunum að styðja fjárhagslega við barnsmóður sína eða börn. Fólk í fátækrahverfum er algerlega á eigin spýtum og eftirfylgni af hálfu yfirvalda við fjölskyldur og börn í slæmri stöðu er engin. Hver og einn þarf að sjá um sig sjálfur.

ABC skólinn í Kasangati er staðsettur í miðju íbúðarhverfi þar sem fjöldi fjölskyldna býr við miður góðar aðstæður þó ekki sé um að ræða fátækrahverfi í eiginlegum skilningi. Á leiðinni sjást fjölmargir markaðir sem selja mat og ávexti á vegi sem er eingöngu rauðleit mold. Allir sem á vegi manns verða eru að reyna sitt besta að þéna smá pening. Þeir sem ekki standa vaktina á mörkuðunum sjást berandi ávexti, trjágreinar eða hey á öxlum sínum eða með tvöfalt meira magn af svipuðu sem búið er að festa við reiðhjól. Svo eru fjölmörg bifhjól sem þjóta fram hjá en nokkrir á þeim stoppa og spyrja hvort þörf sé á fari. Þetta eru sem sagt leigubílarnir og alls ekki óalgengt að sjá þrjá einstaklinga um borð í þeim.

Agnes er harðduglegur starfsmaður og stendur vaktina í skólanum frá klukkan 7 á morgnana til 5 á daginn sex daga vikunnar. Hún er 35 ára gömul og er einstæð þriggja barna móðir. Eitt af börnum hennar er nemandi í framhaldsskóla í ABC skólanum í Kitetikka. Saga hennar mjög svipuð margra kvenna að sögn Trudy Odida, annars forstöðumanns ABC Children‘s Aid í Úganda.

Agnes átti eiginmann sem dag einn yfirgaf hana og tók saman við aðra konu. Hann skildi Agnesi eftir með börnin þeirra þrjú og hefur ekkert samband við þau né styrkir fjárhagslega. Þetta var fyrir 10 árum síðan og Agnes hefur þurft að framfleyta sjálfri sér og börnunum með einhverjum hætti. Í langan tíma vann hún í verksmiðju sem framleiddi drykkjarföng. Þar vann hún frá sólarupprás til sólseturs alla daga vikunnar og fékk að launum 100.000 úganska shillinga á mánuði. Það eru í kringum 2.800 íslenskar krónur og dugar mjög skammt þó svo flest allt í landinu sé ódýrt á okkar mælikvarða. En Agnes gat ekki einu sinni stólað á þessi laun því á tímum kom fyrir að hún fékk ekkert greitt.

Með mikilli vinnu og erfiði tókst Agnesi að koma einu barninu sínu í ABC skólann því hún vill ekkert heitar en að börnum hennar bíði betri framtíð. Trudy kynntist Agnesi og þótti mikið til hennar koma. Þegar færi gafst bað Trudy hana Agnesi að hefja störf sem vörður í skólanum og þar stendur hún sig með prýði. Hún fær betri laun, einn frídag í viku og getur séð fyrir sjálfri sér og börnunum sínum. Þegar Trudy og Laufey Birgisdóttir, framkvæmdarstjóri ABC barnahjálpar, ræða stuttlega við Agnesi er eitt sem stendur upp úr í þeim samræðum. Agnes er mjög þakklát fyrir sitt og segist vera mjög ánægð í dag.

Hafa samband

ABC barnahjálp
Víkurhvarfi 2
203 Kópavogi

Opið 9 - 16 virka daga


Sími: 414 0990
Tölvupóstur: